138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

skuldavandi heimila og fyrirtækja.

[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Meðal þess sem við fórum yfir á fundi með seðlabankastjóra er það sem Seðlabankinn er að vinna að sem er greining á áhrifum úrræða sem þegar hefur verið gripið til. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fá það fram hvernig þau hafa gagnast. Á síðasta ríkisstjórnarfundi setti ráðherra efnahags- og viðskiptamála fram gagnaöflun vegna greiðsluvanda heimilanna sem hann hefur verið að vinna að með því að safna upplýsingum hjá bönkum og sparisjóðum, eignamiðlunum, Íbúðalánasjóði, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna o.s.frv. Þetta sýnir, virðulegi forseti, að verið er að vinna að þessu af fullum krafti.

Nú er að greina þennan bráðavanda, eins og ég nefndi, og síðan viljum við fara út í það sem líka er verið að vinna að og tekur lengri tíma, þ.e. að skoða langtímavandann, skuldavanda heimila til lengri tíma, og reyna að gera okkur grein fyrir hvernig hann þróast. Ég segi því bara, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að við erum að vinna að þessu á öllum vígstöðvum og ég held að þær tölur sem Neytendastofa kom fram með séu sem betur fer of háar. Það sé þá meira að marka þær tölur sem við höfum verið að tala um, að það séu um 15–20% sem eru í miklum vanda og ég ítreka að það er allt of há tala.