138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

landbúnaður og aðildarumsókn að ESB.

[15:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég var svo lánsöm að vera viðstödd í gær þegar búnaðarþing var sett. Haldin var merk ræða af formanni Bændasamtaka Íslands þar sem farið var yfir afstöðu samtakanna varðandi Evrópusambandið. Umfangsmikil vinna fer af stað núna á þinginu varðandi þessi mál.

Meðal annars kom fram í máli formannsins að gerð var ný Gallup-könnun varðandi Evrópusambandsmál. Þar kom m.a. fram að 95,7% svarenda telja að það skipti miklu máli að landbúnaður verði stundaður hér á landi um langa framtíð. 84,3% telja að það skipti miklu máli að Íslendingar séu ekki öðrum háðir um landbúnaðarafurðir. 55,9% aðspurðra eru andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu, 62,8% segja að framtíð íslensks landbúnaðar hafi mikil eða nokkur áhrif á afstöðu sína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Þetta eru afskaplega athyglisverðar tölur og væri gaman að fá það fram hjá hæstv. utanríkisráðherra hvaða framtíð hann sér varðandi landbúnaðinn og Evrópusambandið. Hæstv. ráðherra er þingmaður Samfylkingarinnar en sá flokkur hefur jafnan horft mikið til þess hvað skoðanakannanir segja.

Jafnframt væri gott að fá fram álit hæstv. ráðherra á þeim niðurstöðum sem fram komu í könnuninni, að 57,9% svarenda segjast treysta íslenskum stjórnvöldum illa eða alls ekki til að gæta hagsmuna þjóðarinnar í umsóknarferlinu. Er ráðgert af hálfu ríkisstjórnarinnar að gera eitthvað til þess að styrkja þetta traust eða er kannski rétt að stöðva þetta ferli allt saman og draga umsóknina til baka?