138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009 um breytingu á X. og XI. viðauka við EES-samningi.

396. mál
[15:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir hönd Íslands ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 45/2009, um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006, 123/EB um þjónustu á innri markaði. Helsta markmið tilskipunarinnar er að auka flæði þjónustu með afnámi hindrana og einfalda alla ferla um veitingu þjónustu. Þar er um að ræða rammatilskipun sem útfærir gildandi EES-rétt á sviði þjónustu, bæði almennt en líka á sérstökum sviðum.

Eins og menn muna var þetta umdeild tilskipun á sínum tíma. Henni var ætlað að ná yfir nánast öll svið þjónustu en það náðist ekki samstaða um það eftir harðar deilur innan Evrópusambandsins. Þess vegna var farin sú leið að ýmis þjónustusvið eru undanskilin gildissviði hennar.

Menn muna það væntanlega líka, örugglega hv. þm. Ögmundur Jónasson, að bæði Ísland og Noregur gerðu fyrirvara um innleiðingu hennar þegar hún var tekin upp í EES-samninginn. Með því var verið að skerpa á því að hún gildi ekki um vinnurétt og hún hafi ekki áhrif á rétt stjórnvalda til að ákveða hvaða þjónusta er veitt af hinu opinbera og hvernig sú þjónusta er skipulögð og sömuleiðis hvernig hún er fjármögnuð. Í tilskipuninni felst m.a. sú krafa að aðildarríkin einfalda öll leyfisferli með því t.d. að draga úr kröfum um framlagningu ýmissa gagna og með því að gera þjónustuveitendum kleift að sækja með rafrænum hætti um leyfi til að stunda starfsemi sína í tilteknu ríki. Það skal líka áréttað að tilskipunin hugar einnig að réttindum neytenda en samkvæmt henni er þeim sem veita þjónustu gert að hafa tilteknar upplýsingar aðgengilegar fyrir alla þá sem vilja þjónustunnar njóta. Það er ætlan framkvæmdarvaldsins að innleiða tilskipunina með rammalögum á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Þar að auki var talið nauðsynlegt að gera breytingar á ýmsum lögum. Þess vegna hafa tvö frumvörp verið lögð fyrir yfirstandandi þing, annars vegar frumvarp til laga um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins og hins vegar frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna þjónustuviðskipta á innri markaðnum. Tilgangur þess fyrrnefnda er að greiða fyrir frjálsum þjónustuviðskiptum og tryggja jafnræði. Gildissviðið er víðtækt en þó eru mjög stór og mikilvæg þjónustusvið undanskilin, eins og heilbrigðisþjónusta, félagsþjónusta og fjármálaþjónusta.

Síðarnefnda frumvarpið felur í sér breytingar á ýmsum lögum en með þeim er einkum fallið frá ýmsum kröfum um leyfisveitingar sem eru í gildandi lögum en samræmast ekki þessari þjónustutilskipun. Báðum þessum frumvörpum var vísað til hv. viðskiptanefndar í kjölfar 1. umr. Þar sem þessi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.