138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

397. mál
[15:44]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta en langar eiginlega frekar að spyrja hann en að fara í andsvar við hann um þau frumvörp sem liggja fyrir, annars vegar um vátryggingafélög og hins vegar um fjármálafyrirtæki. Eru þessi frumvörp ekki sambland af því að bregðast við því sem fram kemur í EES-samningum og reglugerðum og því að breyta gildandi lögum á Íslandi óháð því sem fram kemur í EES-samningnum?

Þá er önnur spurning til hæstv. utanríkisráðherra. Hún varðar meðferð EES-mála almennt í þinginu, kynningu þeirra, umræðu og afgreiðslu. Erum við ætíð að bregðast við einhverju sem þegar á að vera komið í gildi eða tökum við inn tilskipanir án þess að tímafresturinn sé liðinn, ef hæstv. utanríkisráðherra skilur hvað ég á við?