138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

397. mál
[15:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns hygg ég að það sé rétt hjá henni að að því er varðar annað frumvarpið þar sem fjallað er um vátryggingastarfsemina sé um að ræða þá blöndu sem hv. þingmaður talaði um. Þar byggi ég meira á vitneskju minni af þeim frumvörpum sem lögð voru fram á síðasta þingi en þá var klárlega um það að ræða.

Að öðru leyti er mér ekki fullkunnugt um hvort það gildir um hitt frumvarpið líka. Það er ekki ég sem legg frumvarpið fram. Ég legg einungis þessa þingsályktunartillögu fram til að staðfesta þessa ákvörðun og þar með að uppfylla skilyrði þings- og stjórnskipunarinnar um að aflétt verði stjórnskipulegum fyrirvara sem settur var í krafti 23. gr. stjórnarskrárinnar og verður að gera þegar breyta þarf lögum.

Að því er varðar síðari spurninguna, hafi ég skilið hana rétt, hefur nýlega komið fram í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um Ísland í tengslum við aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu að Ísland stendur sig ívið betur en flest ríki við að innleiða þær gerðir, tilskipanir og reglur sem nauðsynlegt er að gera. Ég hygg því að þó að í sumum tilvikum sé sá frestur liðinn sem settur er þá stöndum við okkur ekki verr en aðrir. Hins vegar nota ég tækifærið og lýsi þeirri skoðun minni sem ég hef margoft gert á Alþingi að ég tel að Alþingi eigi með miklu skipulegri hætti að fara í skoðun á þessum málum. Þegar við tökum ákvarðanir í sameiginlegu EES-nefndinni gerist það með því að lögð eru ákveðin drög fyrir ríkisstjórn. Þau eru samþykkt eftir atvikum og síðan er gerður við þau fyrirvari sem felur í sér lagabreytingar. En ég tel að þingið eigi miklu fyrr að koma að þessum málum og helst jafnvel áður en þessi mál fara í þennan farveg.