138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

397. mál
[16:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að mér er umhugað um það að hún sofi vel og komi glöð í skapi til þingstarfa á hverjum morgni. En gamanlaust legg ég sem utanríkisráðherra mikla áherslu á að starfsmenn utanríkisráðuneytisins fylgist gaumgæfilega með framkvæmd samningsins. Þetta er vant fólk, það er á tánum og gerir hlutina vel. Ég tel ekki að sú vinna sem er í gangi vegna aðildarumsóknarinnar torveldi það neitt. Ég hef sagt það áður við hv. þingmann að við höfum í reynd breytt starfsfyrirkomulagi í ráðuneytinu þannig að við höfum sogað til þess fólk úr ýmsum öðrum deildum en ekki úr þessari, þvert á móti ef eitthvað er, hefur verið gefið í á þessu sviði. Ég fullvissa því hv. þingmann um að hún mun á næstu missirum eiga rólegar nætur, a.m.k. vegna þessa.

Hins vegar þarf afstaða mín í þessu efni ekki að koma hv. þingmanni á óvart. Ég hef bæði tjáð hana í ræðu og riti. Ég hef sagt það áður að EES-samningurinn hafi átt inni, það væri hægt t.d. af hálfu þingsins að nýta hann betur til að koma ár Íslands dýpra og betur fyrir borð. Að þessu leyti til vorum við, ég og fyrrverandi dómsmálaráðherra, algerlega sammála. Við vorum að vísu ósammála um hvort Ísland ætti síðan að stíga skrefið til fulls og sækja um aðild að Evrópusambandinu en við vorum sammála um þetta. Á sínum tíma sameinuðumst við í Evrópunefndinni um einar fjórar eða fimm tillögur. Þar tókst þó ekki að koma fram tillögunni um að flokkahóparnir yrðu styrktir til að hafa fulltrúa í viðkomandi flokkahópum á Evrópuþinginu en það voru margir í Evrópunefndinni sem voru þó þeirrar skoðunar, ekki allir. Ég tel að það væri hið besta mál og fagna því sem hér hefur komið fram í þessari umræðu um þær reglubreytingar sem nú eru á döfinni (Forseti hringir.) hjá forsætisnefnd Alþingis.