138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

397. mál
[16:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil beina því til okkar allra hérna, og þá sérstaklega fulltrúa í hv. forsætisnefnd, að koma þessum reglum sem fyrst í framkvæmd. Mér sýnist vera mikil samstaða um að þær séu til mikilla bóta. Þar er einmitt sú tillaga um að flokkarnir ræki betur samband sitt við kollega sína á Evrópuþinginu.

Varðandi forgangsröðun verkefna í utanríkisráðuneytinu efast ég ekki um að starfsfólk hæstv. ráðherra sé hæft fólk og vant, ég dreg það alls ekki í efa. Hæstv. ráðherra sagði að þetta væri vant fólk á tánum, það hefði tækifæri til að sinna öllum þessum málum en svo ég grípi aftur í líkinguna um svefnvenjurnar þarf vant fólk sem er á tánum líka að sofa á nóttunni. Það kemst ekki yfir nema svo og svo mikið. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að fara sér hægt í umsóknarferlinu og einbeita sér meira að því að passa upp á það sem skiptir mestu máli núna, það er að gæta hagsmuna okkar og að beita sér fyrir því að við komum fyrr inn í ákvarðanatökuferlið, þau tækifæri sem við höfum innan samningsins. Í því sambandi minnist ég á þessar reglur eina ferðina enn.

Við getum og eigum eftir að ræða Evrópusambandsaðildarumsóknina oft og mörgum sinnum en nú eru það EES-gerðir sem eru til umræðu. Ég verð að segja að þó ég sé ekki að ræða einmitt þessa umsókn hér, eru það alltaf sömu spurningarnar sem þetta snýst um, alltaf sama áhyggjuefnið: Aðkoma þingsins. — Ég sé hæstv. fjármálaráðherra sem sat með mér í utanríkismálanefnd, við skrifuðum þessar reglur í sameiningu, sátt og samlyndi. Við þurfum að fara að koma þessum málum í þann farveg (Forseti hringir.) að þinginu sé sómi að.