138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

398. mál
[16:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007, um breytingu á II. viðauka, Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun, við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EBE.

Meginmarkmið tilskipunar 2006/66/EB er að draga úr neikvæðum áhrifum nýrra og jafnframt notaðra rafhlaðna og rafgeyma á umhverfið og stuðla þannig að því að umhverfið sé bætt, verndað og varðveitt. Tilskipunin felur m.a. í sér ákvæði um takmarkanir á markaðssetningu þeirra hluta sem innihalda ákveðin hættuleg efni. Auk þeirra reglna sem varða það hvernig setja ber rafhlöður um markað og rafgeyma er að finna í þessari tilskipun sérstakar reglur um söfnun, endurvinnslu, meðhöndlun og förgun notaðra rafhlaðna og rafgeyma. Tilgangur þeirra er vitaskuld að bæta viðeigandi löggjöf um úrgang og stuðla að söfnun og úrvinnslu notaðra rafhlaðna og rafgeyma. Það er ráðgert að þessi tilskipun verði innleidd með breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald og breytingum á reglugerðum til þess að útfæra einstök ákvæði nánar.

Áhrifa vegna innleiðingar þessarar tilskipunar mun gæta fyrst og fremst hjá framleiðendum eða þriðju aðilum fyrir þeirra hönd vegna kostnaðar við söfnun, meðhöndlun og endurvinnslu. Að auki mun áhrifa gæta hjá Umhverfisstofnun vegna þess að í þessu felast líka kröfur um að stofnunin skrái framleiðendur og á hana eru settar auknar kvaðir um leiðbeiningar og miðlun upplýsinga til almennings. Sömuleiðis mun þetta hafa áhrif hjá stofnuninni vegna vinnu við skýrslugjöf um framkvæmd og útreikning á því hversu hátt hlutfall rafgeyma og rafhlaðna er safnað en þess er krafist samkvæmt tilskipuninni.

Þessi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og því var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Með þessari tillögu er framkvæmdarvaldið því einnig að óska eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem felst í ákvörðuninni þannig að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg svo til, frú forseti, að þegar þessari umræðu slotar verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.