138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

tekjuskattur.

403. mál
[16:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Með þessu litla frumvarpi eru lagðar til lagfæringar á misfellum sem urðu sem orsökuðust af því, svo ótrúlegt sem það er, að birting tveggja laga sem samþykkt voru hér á liðnu haustþingi um breytingu á lögum um tekjuskatt varð ekki í samræmi við samþykki þeirra. Fyrra frumvarpið fól í sér fyrst og fremst breytta skipan á skattstjórnsýslunni með sameiningu embætta skattstjóra og ríkisskattstjóra. Með síðara frumvarpinu og hinu viðameira voru settar fram efnisbreytingar á ýmsum ákvæðum tekjuskattslaga og var framsetning breytingartillagnanna miðuð við að frumvörpin yrðu afgreidd í þeirri röð sem þau voru flutt og að hið almenna frumvarp um breytingu á tekjuskattslögum yrði að lögum á eftir hinu, sem breytti stjórnkerfinu.

Þetta gekk eftir í meðförum Alþingis. En þegar að birtingu laganna kom fór hins vegar á annan veg, þ.e. að annars vegar lög nr. 128/2009, sem fólu í sér efnisbreytingar, og hins vegar lög nr. 136/2009, sem fólu í sér breytingar á skattumdæmum, að breytingin varð öndverð við það sem lagt var upp með og við þá afgreiðsluröð sem varð á Alþingi. Þetta veldur því að breytingar samkvæmt tveimur tilteknum efnisgreinum laganna verða marklausar. Með þessu frumvarpi er sem sagt einfaldlega ætlað að rétta af framangreindar misfellur. Þær hafa ekki valdið og munu ekki valda neinum vandkvæðum í sambandi við skattaframkvæmd svo fremi að þetta verði lagfært þannig að ákvæðin verði skýr og að til staðar séu þær heimildir sem hér um ræðir, sem eru fyrst og fremst ívilnandi heimildir, þegar að skattaúrvinnslu kemur á síðari hluta ársins.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að það verði áréttað að hækkun skatthlutfalls félaga með annað reikningsár en almanaksárið taki ekki til þeirra félaga sem ljúka því reikningsári sem hófst á árinu 2009 á árinu 2010. Hækkunin á tekjuskattshlutfalli úr 15 í 18% hjá þeim félögum sem svo háttar til um kemur þannig fyrst til þegar álagning fer fram á árinu 2011 eða síðar vegna þess reikningsárs sem hefst á árinu 2010. Að öðru leyti felur frumvarpið ekki í sér neinar efnisbreytingar. Þetta er til þess að gera það alveg skýrt að í þeim tilvikum þar sem reikningsárið er annað en almanaksárið er það endagildi reikningsársins sem gildir.

Verði frumvarpið að lögum verður alls ekki séð að það muni hafa með sér neinn aukakostnað fyrir ríkissjóð þar sem um afar einfalda lagfæringu er að ræða sem stafar eingöngu af þessum ástæðum og er þar eiginlega ekki við neinn að sakast. Ég veit satt best að segja ekki hvernig þetta gerðist en um frumvörpin var fjallað hér og þau afgreidd í réttri röð. Þau tóku gildi í réttri röð en birtingin snerist við og það veldur þessum áhrifum.

Að þessu sögðu, frú forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari.