138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

tekjuskattur.

403. mál
[16:30]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, það eru óvenjulegir tímar og það er betra að hafa rúman tíma þegar maður fer í viðamiklar kerfisbreytingar. Það er nákvæmlega það sem ég var að segja hér áðan og þar greinir okkur hæstv. fjármálaráðherra á um að á þeim óvenjulegu tímum sem við lifum núna er eins gott að hafa forgangsröðunina í lagi. Í stað þess að nota tækifærið — sem var kannski aðkallandi að flestra mati, ég get alveg tekið undir það, það þurfti að auka tekjur ríkissjóðs en við erum ekki sammála um með hvaða hætti — var tekin pólitísk ákvörðun um að fara út í breytingar á skattkerfinu, þrepaskipta því og gera alls kyns æfingar sem kostuðu fyrirtæki, eins og hæstv. fjármálaráðherra fór yfir, fjármuni í kerfisbreytingum og öðru. Hæstv. fjármálaráðherra er ánægður og biður mig að taka undir að þetta hafi gengið vel og að ekki hafi verið miklar fréttir af skakkaföllum.

Ég segi við hæstv. fjármálaráðherra að ég hef trú á því að við eigum eftir að heyra fullt af slíkum fréttum. Við eigum eftir að heyra frá fólki sem er kannski hjá tveimur eða þremur atvinnuveitendum og á eftir að lenda í alls kyns eftiráuppgjöri og vandkvæðum þegar árið verður gert upp. Það eru fréttir sem ég veit að hæstv. fjármálaráðherra mun fá hvenær sem það verður.

Ég vona hins vegar, bara vegna þess að við höfum nóg að gera í öðru, að fyrirtækin hafi komist í gegnum þessa breytingu klakklaust og ég vona líka að við komumst í þá aðstöðu hér einhvern tíma fljótlega að breyta hlutum þannig að þetta verði allt einfaldara í framkvæmd. En það er líka önnur umræða.