138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

tekjuskattur.

403. mál
[16:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og það er leiðrétting vegna laga um tekjuöflun ríkisins. Þetta er eitthvað sem ég hafði spáð í vetur að mundi koma og ég yrði afskaplega ánægður, frú forseti, ef ekki kæmi meira en þetta vegna þess að hraðinn var þvílíkur á þessum frumvörpum. Þau eru afskaplega flókin, þetta eru stór og mikil frumvörp, það er verið að kollvarpa ákveðnum kerfum, það er verið að setja inn í þau öll nýja skatta o.s.frv. Hættan er sú að eitthvað fari úrskeiðis þegar þau eru afgreidd með þvílíku hraði og rifin út úr nefndum án þess að vera fullrædd eða að beðið sé um umsagnir o.s.frv., jafnvel ekki gesti. Það er því mikil hætta á því að það komi einhverjir hnökrar og gallar í ljós.

Ég skora á hv. nefndir og hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn að gefa sér betri tíma til að ræða mál. Menn höfðu allt haustið í rauninni til þess að gera þetta. Það lá fyrir að breyta ætti sköttum og það lá fyrir að vinstri stjórnin sem kosin var í alþingiskosningum síðast ætlaði sér að koma á vinstri sköttum, flóknum og að mínu mati ljótum sköttum. Það var óskaplega mikið flækjustig og óskaplega mikið magn af færslum eins og varðandi orkuskattana. Það eru sennilega milljón færslur og flækjustigið vex óskaplega.

Hættan er náttúrlega sú að eitthvað fari úrskeiðis þegar hraðinn er svona mikill. Ég yrði, eins og ég segi, afskaplega ánægður ef þetta væri það eina sem kæmi í ljós. Því miður óttast ég að svo verði ekki.