138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

upplýsingar í ökuskírteini um vilja til líffæragjafar.

175. mál
[16:50]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að kynna hér til sögunnar tillögu til þingsályktunar sem ég er 1. flutningsmaður að en auk mín flytja þetta mál fimm þingmenn aðrir úr Samfylkingunni. Þessi tillaga gengur út á það að upplýsingar um vilja til líffæragjafar verði skráðar sjálfkrafa í ökuskírteini.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, sem sat hér á þingi í nokkur ár, fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar, bryddaði upp á þessu máli á sínum tíma og flutti það en það náði ekki fram að ganga, þ.e. það náðist ekki út úr nefnd. Ég geri ráð fyrir því að að lokinni þessari umræðu fari þessi tillaga til hv. samgöngunefndar og fái þar efnislega umfjöllun.

Ég tel að við séum öll sammála um að mikilvægi líffæragjafa. Þær bjarga lífi mjög margra og geta aukið lífsgæði líffæraþega til muna. Hér á landi er staðreyndin sú að það er mun meiri eftirspurn en framboð og því er það mjög áríðandi að fjölga líffæragjöfum. Svo er það auðvitað umhugsunarefni af hverju við Íslendingar erum ekki eins viljug og aðrar þjóðir að gefa úr okkur líffæri að okkur látnum eða að láta skrá okkur á sérstaka skrá í þeim tilgangi. Það er því mjög nauðsynlegt að upplýsingar um vilja til líffæragjafa verði sem aðgengilegastar. Þess vegna tel ég að sú leið að skrá þetta sjálfkrafa í ökuskírteini sé mjög heppileg leið. Þetta er leið sem er farin t.d. í Bandaríkjunum, og í sumum löndum eins og á Norðurlöndunum er upplýsingarnar að finna á sérstöku sjúkratryggingaskírteini.

Á Íslandi er það þannig að ef ég vil láta gefa úr mér líffæri að mér látinni hef ég þann kost að skrá það sérstaklega í svokallaða lífsskrá hjá landlæknisembættinu. Staðreyndin er hins vegar sú að mjög fáir hafa nýtt sér þennan kost og þess vegna tel ég brýnt að leita nýrra leiða í þessum efnum. Mér finnst það líka mjög mikilvægt í þessu efni að fólk sé almennt hvatt til þess að íhuga hvort það vilji gefa úr sér líffæri. Með því að setja þessa skráningu á ökuskírteini þarf hver einstaklingur að gera upp við sig hvort hann hefur áhuga á að gefa líffæri eða ekki. Ég held því fram að við séum allt of fá sem veltum þessu yfir höfuð fyrir okkur því að þetta er jú kannski ekki það sem maður veltir beinlínis fyrir sér dags daglega, hvernig maður vill láta fara með líffæri sín að manni látnum.

Í 2. gr. laga um brottnám líffæra, nr. 16/1991, kemur fram að liggi fyrir samþykki einstaklings megi, að honum látnum, nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama hans til nota við læknismeðferð annars einstaklings. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Liggi slíkt samþykki ekki fyrir er heimilt að fjarlægja líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings ef fyrir liggur samþykki nánasta vandamanns hans og slíkt er ekki talið brjóta í bága við vilja hins látna.“

Staðreyndin er hins vegar sú, frú forseti, að í niðurstöðum athugana á líffæragjöfum á Íslandi yfir tíu ára tímabil kom fram að þegar leitað hefur verið samþykkis ættingja fyrir líffæragjöf var erindinu neitað í um 40% tilvika. Landlæknir hefur sagt að það sé alltaf að aukast að ættingjar neiti bón um að líffæri séu fjarlægð. Það er að mörgu leyti mjög skiljanlegt því að það getur auðvitað verið erfitt fyrir fólk á sorgarstundum, ég tala nú ekki um þegar fólk fellur frá fyrirvaralaust, í slysum eða einhverju slíku, þá getur auðvitað verið mjög erfitt fyrir ættingja þess látna að ákveða á þeirri sorgarstundu hvort það eigi að taka líffæri úr viðkomandi og gefa þau, kannski vegna þess að málin hafa aldrei verið rædd við hinn látna eða vilji hins látna liggur ekki fyrir. Það hlýtur því að vera heppilegra að fleiri ákveði þá sjálfir hvort þeir vilji gefa líffæri, enda er það í samræmi við sjálfsákvörðunarrétt hvers einstaklings.

Það er ekki gert ráð fyrir því að þessi breyting sé afturvirk, þ.e. að þeir sem nú þegar eru með ökuskírteini hafi þessa viljayfirlýsingu á skírteininu. Það er ekki nema þeir ætli sér að endurnýja ökuskírteini sín eða endurnýi þau af því að þeir ætla að setja þessa viljayfirlýsingu þar inn, þá þurfa þeir að gera það með sérstakri aðgerð. Hér er hins vegar talað um að þetta sé sjálfstæð ákvörðun þess einstaklings sem fær ökuskírteini.

Það er líka mjög mikilvægt í þessu sambandi að hert verði á upplýsingagjöf til almennings um líffæraskrána sem liggur fyrir hjá landlæknisembættinu. Sumt fólk er einhverra hluta vegna ekki með ökuskírteini eða kærir sig ekkert um að endurnýja sín ökuskírteini. Það er mikilvægt að hert sé á upplýsingagjöf til þessa fólks og almennings um það að þessi líffæraskrá sé til staðar og að fólk geti skráð sig á hana. Ég held að þetta tvennt verði að haldast í hendur.

Ég vil líka nefna það í þessu sambandi, frú forseti, að þetta mál hefur áður verið flutt hér og var lagt fram af minni hálfu hér í haust. Stundum er það þannig hér í þinginu að mál fást ekki rædd á þeim tímapunkti sem þau eru lögð fram þannig að núna hafa liðið nokkrir mánuðir frá því að ég skilaði þessu máli inn þar til það kemst til umræðu nú í dag.

Í dag vakti hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Kristján L. Möller athygli mína á því að þann 1. febrúar 2010, fyrir sléttum mánuði síðan, hefði einmitt verið undirrituð reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 501/1997, um ökuskírteini, þetta er breyting á reglugerð þar sem segir í 4. gr.:

„Liggi fyrir sérstök, skrifleg beiðni ökuskírteinishafa er heimilt með tákntölu að tilgreina upplýsingar í ökuskírteini um að hann sé líffæragjafi.“

Þarna er því í raun og veru þingsályktunartillagan mín hér komin til framkvæmda í formi reglugerðar. Hins vegar, af því að ég sé að hæstv. ráðherra er kominn hér í salinn og ég vænti þess að hann taki þátt í þessari umræðu, vakti það athygli mína að í þessari reglugerð stendur að beiðni um þetta skuli undirrituð í viðurvist lögreglustjóra. Þetta virkar dálítið umhendis og svolítið skrifræðislegt. Ég hefði talið að heppilegra væri að menn segðu sig frekar frá því að vera með sérstaka tákntölu í ökuskírteini ef fólk vill ekki vera líffæragjafar. Ég held að það væri betri nálgun en þessi. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um það hvernig hann skilur þetta, hvort þeir sem núna fá ökuskírteini í hendurnar þurfi þá að undirrita það í viðurvist Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra hér á höfuðborgarsvæðinu í tilviki Reykvíkinga ef þeir vilja gefa úr sér líffæri og láta skrá það á ökuskírteini. Um leið og ég fagna því og hrósa hæstv. ráðherra fyrir að vera búinn að koma reglugerðinni í farveg og setja þetta mál af stað hef ég aðeins vangaveltur varðandi þetta tiltekna atriði. Ég vildi gjarnan heyra í hæstv. ráðherra um hvað hann segir varðandi það.

Auk þess sem ég hef rætt um, viljann til skráningar í ökuskírteini — og ég vænti þess að það sé þá á forræði hæstv. heilbrigðisráðherra sem snýr að líffæraskránni hjá landlæknisembættinu — þurfi að herða á kynningu á vegum ráðuneytisins um þennan möguleika fólks til að skrá sig í þessa líffæraskrá. Ég held að það væri líka ágætistækifæri til þess að upplýsa fólk um það hversu mikilvægt það er og hversu mörgum mannslífum það getur í raun og veru bjargað ef við Íslendingar herðum okkur aðeins í þessu og náum nágrannaþjóðum okkar í þeim fjölda sem skráður er á svona líffæraskrá. Því miður er það oft þannig að þeir Íslendingar sem þurfa að fá líffæri, að ég tali nú ekki um með stuttum fyrirvara, geta það ekki. Ef um er að ræða fólk sem þarf að bíða t.d. eftir nýrum, eins og er mjög algengt, þarf fólk oft að bíða mánuðum og jafnvel árum saman og oftar en ekki koma þessi líffæri frá útlöndum en ekki héðan frá Íslandi.