138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

upplýsingar í ökuskírteini um vilja til líffæragjafar.

175. mál
[17:06]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta og eins það sem hann upplýsti, að láðst hefði af hálfu ráðuneytisins að senda út fréttatilkynningu eða vekja sérstaka athygli á þessu. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli þegar þessi reglugerð er komin að vekja athygli á þessu og vekja ungt fólk til vitundar um að það sé möguleiki að setja þessar upplýsingar inn í skírteinin. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. ráðherra til þess ekki bara að senda út fréttatilkynningu heldur að fylgja þessu eftir með kröftugum hætti og þá hugsanlega í samvinnu við hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi líffæraskrána sem er hjá landlæknisembættinu. Þetta er mál sem er þannig vaxið, eins og ég sagði í upphafi, að maður leiðir ekki sérstaklega hugann að þessu venjulega enda á maður kannski ekki að gera það, en þetta er það sem á fyrir okkur öllum að liggja. Þetta er það eina sem er öruggt í lífinu, öll deyjum við einhvern tíma, þannig að öll hvatning til fólks um þessar skráningar er mjög af hinu góða.

Ég vil líka þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin varðandi lögreglustjórann og að beiðni skuli undirrituð í viðurvist lögreglustjóra. Hæstv. ráðherra hefur sagst ætla að skoða það mál. Það kann að vera að það sé bara einfalt, eins og hæstv. ráðherra segir, að fólk geti einfaldlega sent slíka beiðni til lögreglustjóra vottaða af tveimur einstaklingum án þess að lögreglustjóri sjálfur í eigin persónu þurfi að vera viðstaddur þá undirritun. Ég held að þetta sé allt til bóta og vil nota þetta tækifæri fyrir hönd löggjafarvaldsins til að þakka framkvæmdarvaldinu kærlega fyrir að hafa tekið mið af þessum tillögum í gegnum tíðina og sett reglugerðina. Það mættu aðrir ráðherrar taka þetta sér til fyrirmyndar.