138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

lækkun rafmagnskostnaðar garðyrkjubænda.

193. mál
[17:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég fagna þessari tillögu alveg sérstaklega og er einn af meðflutningsmönnunum 18 sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson nefndi áðan. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að hafa frumkvæði að þessu máli.

Þingmaðurinn fór vel yfir þessa tillögu og markmiðin sem sett eru með henni eru þannig að ég tel ekki ástæðu til að endurtaka það sem hann sagði en tek undir hvert orð. Það er mjög brýnt að þessi vinna fari af stað vegna þess að eins og þingmaðurinn sagði áðan ætluðum við að ljúka þessu fyrir árslok síðasta árs. Það var kannski það eina sem ég saknaði úr ræðu þingmannsins, hvort við ættum ekki að gera breytingu í nefndinni og setja vinnunni einhver skarpari tímamörk en fyrir árslok vegna þess að það er dálítið vel í lagt, finnst mér. Það væri best ef hægt væri að koma með einhverjar tillögur fyrir sumarið, fyrir þinglok. Ég geri það hér með að tillögu minni að við veljum einhvern dag í nálægri framtíð.

Þarna eru miklir möguleikar. Þingmaðurinn nefndi að það væru 2,5 milljarða tekjur af þessu núna og það eru ekkert nema möguleikar í þessu. Þetta er gott dæmi um atvinnugrein sem við eigum að leggja rækt við einmitt nú um þessar mundir þar sem við náum svo mörgum markmiðum á sama tíma. Við aukum innlenda framleiðslu og sköpum störf þegar við þurfum að spara gjaldeyri og þetta gerir það að sjálfsögðu líka. Þegar þannig er ástatt í þjóðarbúskapnum að hér er atvinnuleysi, gjaldeyrisskortur og fólk hefur áhyggjur af heilsu sinni er þarna komin leið til að ná a.m.k. þessum þremur markmiðum með einni góðri tillögu.

Það er athyglisverður þessi þéttbýliskjarnavinkill sem þingmaðurinn benti á, mismuninn á taxtanum eftir því hvort garðyrkjustöð er í þéttbýli eða dreifbýli. Það er að sjálfsögðu fullkomlega óskiljanlegt og ég tek undir að þetta er allt of flókin umræða. Það þarf að taka einhver skref og þessari tillögu er ætlað að gera þetta einfaldara. Um margra ára skeið hefur verið hnútukast á milli þeirra sem eru sannarlega stórnotendur í kerfinu og garðyrkjan hefur sóst eftir því að vera skilgreind sem stórnotandi. Ég get alveg tekið undir það með þingmanninum að það er ekki nákvæmlega það sem á að vera að berjast fyrir hér. Það liggur alveg í augum uppi að það er engin sanngirni í því að garðyrkjustöð sem notar ákveðið magn af rafmagni sé borin saman við álver sem spennir niður sjálft og nýtir rafmagnið á öllum tímum sólarhringsins og allt þar fram eftir götunum. En það er heldur engin sanngirni í því að garðyrkjustöð sé á sama taxta og heimili þannig að á þessu þarf að gera bragarbót og það þarf að finna leið til að gera það á einfaldan hátt. Út frá sjónarhorni leikmannsins finnst manni að það hljóti að vera einfaldast að gera það með því að búa einfaldlega til nýjan taxta inn í gjaldskrána, að viðurkennt sé að garðyrkjustöð sé notandi einhvers staðar á milli stóriðjunnar og heimilisins og þá eigi hún að vera rukkuð sem slík. Það er engin sanngirni í öðru. Þessi millileið er sú sem við þurfum að finna og ég trúi ekki öðru en að við getum með einföldum hætti náð góðri sátt um það.

Ég hvet hæstv. landbúnaðarráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra til dáða í þessu vegna þess að það er alveg ótækt að talað sé á hátíðarstundum um mikilvægi þess að skapa atvinnu, skapa störf, og svo gerist ekki neitt. Þetta er dæmi um hlut sem þarf ekki að vera pólitískt ósætti um. Ég get ekki séð að nokkur heilvita maður mundi leggjast gegn því að við framleiðum meira af grænmeti og styrkjum innlenda framleiðslu þannig að ég hvet ráðherrana til dáða, að koma þessari vinnu af stað. Ég vona svo sannarlega að við getum sammælst um að koma þingsályktuninni hratt og örugglega í gegnum þingið og, eins og ég sagði í upphafi máls míns, legg ég til að tímamörkin verði stytt í árslok 2009 en ekki 2010. Að öðru leyti vísa ég í orð hv. 1. flutningsmanns tillögunnar og geri þau að mínum.