138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

lækkun rafmagnskostnaðar garðyrkjubænda.

193. mál
[17:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um lækkun rafmagnskostnaðar garðyrkjubænda. Þetta er ein af þeim fjölmörgu þjóðþrifatillögum sem komið hafa fram á Alþingi á yfirstandandi þingi og vonast ég sannarlega til að tillagan fái vandaða en samt eins hraða meðferð og hægt er til að hægt sé að koma henni í hendur þeirra ráðherra sem málið varðar.

Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir framsögu hans og ég tek undir orð hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur um dagsetningu á því hvenær eigi að ljúka þessari vinnu. Ég held að það sé mikilvægt að við horfum til einhvers dags áður en þingi lýkur og leyfi ég mér að beina því til nefndarinnar sem fjalla mun um málið að horfa til þess.

Við vitum það og þekkjum að dreifingarkostnaður er stór hluti og líklega einn stærsti hlutinn í þessu sem þarf að skoða og skilgreiningar í raforkulögum á því hvenær um er að ræða þéttbýli eða dreifbýli skipta að sjálfsögðu miklu máli. Inn í þetta spilar svo að sjálfsögðu, leyfi ég mér að segja, í raun almannaheill, þ.e. að við búum þannig um hnútana að hér á landi geti þrifist öflug garðyrkja og við getum um leið tryggt ákveðinn hluta af þeirri fæðu sem íslenska þjóðin þarf á að halda. Það er mjög heppilegt og gott ef við getum sparað gjaldeyri með því að þurfa ekki að flytja inn erlent grænmeti eða erlendar vörur sem þetta heyrir til, hvort sem það er grænmeti, ávextir, blóm eða annað, allt sem við getum framleitt meira hérlendis og nýtt betur hverja krónu skiptir miklu máli og ekki síst í dag.

Ekki þarf að ræða hversu mikil áhrif þetta hefur á þau samfélög þar sem þessi starfsemi fer fram eins og önnur starfsemi, en það sem er athyglisverðast í því umhverfi sem þessir aðilar og aðrir búa við, hvort sem það eru bara heimilin sem sífellt bera hærri raforkukostnað við húshitun og þess háttar, þar sem ekki er hitaveita væntanlega, eða aðrir, er að opinberir aðilar, ríkisvald og sveitarfélög, eru nánast með alla þræði í hendi sér varðandi orkuframleiðsluna, dreifinguna og söluna. Færa má rök fyrir því að nú sé komin það mikil reynsla á nýju raforkulögin að það sé í raun fyrir þó nokkru síðan orðin full ástæða til að endurskoða þau og fara í gegnum þá vankanta sem á þeim eru eins og þann sem við ræðum hér og því er hægt að höfða til þess að það eru opinberir aðilar sem eiga að sjálfsögðu að bera fyrir brjósti hag allra sem koma að þessu máli. Það er því ekki eftir neinu að bíða að hefja breytingar sem eru augljósar.

Við vitum að í gangi er vinna eða heildarendurskoðun — ég held að það kallist það ef ég man rétt — á lögunum, en ég held að við ættum að taka hið augljósa þegar það snýst um hagsmuni þjóðarinnar, hagsmuni heildarinnar, og ekki síst það að tapa ekki verkkunnáttu og störfum og okkur ber að horfa til þess. Í fylgiskjölum með tillögunni eru mjög góðar úttektir á því hvernig staðan er á þeim tíma sem þær eru gerðar og ágæt lýsing á því sem þarf að breyta.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð uppi um þingsályktunartillöguna, ég er á henni eins og margir aðrir þingmenn, hins vegar er mikilvægt að þeir ráðherrar sem að málinu koma, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og iðnaðarráðherra, taki tillögunni vel og komi henni sem allra fyrst í þann gang sem þarf að vera.