138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

287. mál
[17:58]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um plan B eins og það er kallað og ekki veitir af. Við höfum hingað til ekki fengið það út úr þessu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem vænst var. Við höfum mátt horfa upp á það hvernig honum hefur verið misbeitt gegn hagsmunum þjóðarinnar með grófum hætti. Það er að mínu mati og okkar sem erum með þessa tillögu einfaldlega ekki líðandi.

Þessi tillaga til þingsályktunar krefst þess einfaldlega að gerð verði nákvæm úttekt á þörfinni fyrir veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi. Þegar óskað var eftir aðstoð hans á sínum tíma var vissulega þörf á henni. Bankakerfið var hrunið og menn stóðu frammi fyrir algerri gjaldeyrisþurrð. Það virtist nánast ekki vera til gjaldeyrir fyrir eldsneyti og lyfjum og það þurfti að grípa til örþrifaráða. Enginn vildi lána Íslendingum gjaldeyri nema leita fyrst til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og orðspor Íslendinga var náttúrlega þannig og er enn að það er kannski ekki furða. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur hins vegar verið misbeitt með þeim hætti. En efnahagslífið hefur rétt úr kútnum að því marki að það er verulega stórt spurningarmerki sem þarf að setja við það hvort þörf er á áframhaldandi veru hans hér. Útflutningsatvinnuvegirnir ganga mjög vel. Þrátt fyrir að í aðra röndina séu Íslendingar ódýrasta vinnuafl í allri Evrópu í dag malar það vinnuafl gull í útflutningi og það telur í kassann og það eru vissulega að skapast betri aðstæður en voru á sínum tíma. Það er því fyllsta ástæða til að fara að leita annarra leiða í efnahagsmálum en gert hefur verið hingað til til að fullnægja einhvers konar efnahagsáætlun sem fullnægir þörfum Íslendinga og almennings á Íslandi til að hjálpa þeim í þeim kröggum sem menn búa við.

Nákvæm langtímaefnahagsáætlun fyrir Ísland og fyrir Íslendinga gerða af færustu innlendum og erlendum sérfræðingum er það sem við þurfum á að halda. Við þurfum ekki á skammtímaprógrammi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að halda. Þeir hafa lýst því yfir að skuldir Íslendinga séu ekki sjálfbærar til næstu fimm ára og eftir það verði þeir löngu farnir og Íslendingar verði einfaldlega að finna út úr því sjálfir. Þangað til munu aðferðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verða notaðar og þær eru smám saman að kyrkja íslenskan almenning og íslensku heimilin. Hagsmunir Íslendinga og almennings verða einfaldlega að vera í fyrirrúmi fyrir slíkum aðferðum sem ég tel að séu einfaldlega orðnar gerræðislegar eins og þær blasa við fólki í dag.

Það eitt að sjóðnum hafi verið misbeitt æ ofan í æ til að kúga Íslendinga til hlýðni við Icesave-samkomulag er nóg til að honum verði vísað frá. Allt hitt sem gerir það að verkum að þær hefðbundnu nýklassísku frjálshyggjuaðferðir sjóðsins sem notaðar eru til að kyrkja heimilin eru síðan fleiri ástæður til að reyna að losa sig við þjónustu þessa sjóðs.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur alla tíð verið notaður sem pólitískt vopn ef þurft hefur á að halda og hann hefur verið verkfæri stórþjóða og stórkapítalsins um allan heim hvenær sem á hefur þurft að halda. Ég þekki svolítið til í Afríku varðandi skuldir ríkissjóða Afríkuríkja. Þar hefur sjóðnum vissulega verið misbeitt undanfarin 30–40 ár. Það er athyglisvert að segja frá því að undanfarin 2–3 ár þar sem Kínverjar hafa verið að koma inn í auknum mæli með þróunaraðstoð til Afríkuríkja, ásamt því að sjálfsögðu að gera viðskiptasamning við Afríkuríki, þá hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekið upp á því að fara að senda þessum Afríkuþjóðum gluggaumslög út af skuldum sem var ákveðið fyrir áratugum að hætta að innheimta. En neðanmáls í þessum bréfum segir: Úr því að þið eruð farin að fá svona mikla efnahagsaðstoð frá Kína hafið þið kannski efni á því að fara að endurgreiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þetta sem við lánuðum ykkar einræðisherrum fyrir 20–30 árum. Þannig vinnur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn oft og það er einfaldlega siðlaust að haga sér með þessum hætti.

Sjóðurinn notast almennt við hugmyndafræði frjálshyggju og felur hana svolítið inn í hagfræðikenningar sem virðast vera vel ígrundaðar en hafa oftar en ekki skilið einfaldlega eftir sviðna jörð í þeim löndum sem hafa notið aðstoðar sjóðsins. Ég leyfi mér að endurtaka það sem kemur fram í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Nýleg könnun sem gerð var af miðstöð fyrir rannsóknir á efnahags- og stjórnmálum í Washington leiddi í ljós að af 41 landi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur haft afskipti af undanfarin ár hafa 31 verið þvingað til að beita kreppudýpkandi hagstjórnaraðgerðum: háu vaxtastigi, niðurskurði velferðarkerfisins …

Rannsóknir sýna að fjármálakreppa einkennist af mikilli eignatilfærslu frá þeim fátæku til þeirra ríku. Annað sem einkennir fjármálakreppu er aukinn ójöfnuður sem stafar m.a. af auknu atvinnuleysi og niðurskurði velferðarkerfisins. Markmið hagstjórnar á krepputímum á að vera að auka efnahagslega velferð og leiðirnar að því markmiði eru aðgerðir sem tryggja fulla atvinnu, hagvöxt og stöðugleika til lengri tíma. Efnahagsstefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda mun ekki ná fram þessum markmiðum.“

Frú forseti. Við erum að horfa upp á það viku eftir viku að verið er að kyrkja almenning hægt og bítandi. Frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra, Árna Páls Árnasonar, til aðstoðar heimilunum gæti hafa verið og hefur sennilega verið samið af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en því er ætlað, eins og kemur fram í frumvarpinu, að færa eignir að greiðslugetu. Það þarf ekki að velta því lengi fyrir sér hvað það þýðir, þ.e. það á að kreista hverja einustu mögulegu krónu út úr skuldurunum, færa eignir og skuldir að greiðslugetu. En í stað þess að fara í almennar aðgerðir sem fella niður hluta af höfuðstóli lána til að losa fólk almennilega úr snörunni, þá er farin þessi leið að þeir skuldugu eru bundnir á klafa til 20, 30 eða 40 ára og það á að kreista út úr þeim hverja krónu vegna þess að skuldir skulu vera við greiðslugetu.

Annað atriði er vaxtastefna Seðlabankans sem tæpt var á hérna áðan en hávaxtastefna Seðlabankans gerir það m.a. að verkum að ríkið sjálft getur ekki tekið lán til að endurfjármagna sín eigin lán nema á háum vöxtum sem taka mið af vaxtastefnu Seðlabanka Íslands og gerir það m.a. að verkum að rekstur ríkisins og lántaka ríkisins er miklu dýrari en ella. Þetta hangir allt á sömu spýtunni og þetta er allt saman eins öfugsnúið og hægt er að vera ef menn horfa á það utan frá og segja: Hvernig mundum við gera þetta ef hagsmunir almennings væru í fyrirrúmi.

Upphaflega horfði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á Ísland og sagði: Það er ekkert mál fyrir ykkur að borga þessar skuldir. Þið eigið hundruð milljarða í lífeyrissparnaði. Jú, sögðu menn, þetta er lífeyrissparnaður almennings. Þetta eru ekki peningar sem hægt er að taka til að borga niður skuldir sem hafa stofnast til af útrásarvíkingum. Svarið sem við fengum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var einfaldlega þögn. Það kom ekkert frá þeim varðandi það. Síðan hefur verið farið bakdyramegin inn í þennan lífeyrissparnað með því að gera fólki kleift, eins og sagt er, að leysa til sín séreignarsparnaðinn. Það fólk sem er búið að færa skuldir að greiðslugetu getur nú notað séreignarsparnaðinn til að greiða niður þær skuldir sem það annars hafði ekki ráð á. Af þessum séreignarsparnaði tekur ríkið 40% til sín í formi skatta. Þarna er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í gegnum íslenska ríkið að ná því markmiði sínu að lífeyrissparnaður Íslendinga verði notaður til að greiða niður þær skuldir sem urðu til vegna hrunsins.

Við skulum hafa það í huga að þegar séreignarsparnaðurinn er upp urinn verður opnað á útgreiðslu úr almenna lífeyrissparnaðinum líka. Þannig munu þeir greiða niður þær skuldir sem erlendir alþjóðastórkapítalistar hafa stofnað til og eiga og vilja fá greitt. Þetta er allt gert að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og að tilstuðlan hans.

Íslendingar geta gert betur í efnahagsmálum en þeir hafa gert undanfarin ár og þeir geta gert betur en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir til um. Við einfaldlega verðum að gera betur. Annars fer hér mjög illa og það er einfaldlega brýnt að ríkisstjórnin fari að huga af fyllstu alvöru að plani B sem gerir það að verkum að gripið verði til efnahagsaðgerða sem gagnast raunverulega fólkinu í landinu.