138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

287. mál
[18:09]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir þessa tímabæru þingsályktunartillögu sem hér er komin fram og þakka flutningsmanni hennar hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir góða og innihaldsríka ræðu, sömuleiðis hv. þm. Þór Saari. Nú er það svo að þrátt fyrir að ég hafi fengist við fyrirtækjarekstur, einkarekstur, í aldarfjórðung á mjög erfiðu sviði og komist lifandi frá því tel ég mig ekki vera sterkan í efnahagsmálum íslenska ríkisins svo mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvernig færi það fram ef við slitum samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og vísuðum honum til föðurhúsanna? Hvaða áhrif mundi það hafa og hvernig stæðum við? Raunverulega spurningin er: Getum við gert þetta?

Ég mundi fagna því manna mest ef við losnuðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn því mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds þegar hann kom til starfa hér á landi og illur grunur var staðfestur þegar ég horfði upp á það með mínum eigin augum, eins og allir landsmenn sem einhverja sjón hafa, að honum var beitt sem þvingunartæki í Icesave-deilunni í þágu nýlenduþjóðanna Breta og Hollendinga.