138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

287. mál
[18:13]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka svarið, en ég ætla að segja það alveg hreint út að ég hef áhyggjur af því að ef við spörkum Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr landi og slítum samstarfi við hann að þá hafi hann sýnt það í verki hér á landi að hann er ekki góðgerðastofnun. Hann er ekki sérlega velviljaður Íslendingum en þetta er valdamikil og áhrifamikil stofnun á heimsmælikvarða og það sem ég óttast eru hefndaraðgerðir, (Gripið fram í.) þ.e. að stofnunin sjálf eða þeir sem henni ráða muni beita sér fyrir einhverjum hefndaraðgerðum fyrir þá óvirðingu eða niðurlægingu að vera vísað úr landi. Mig langar þá til að nota þetta tækifæri sem ég hef til að spyrja hv. þm. Þór Saari hvort hann og flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu — sem ég styð — séu óttalausir gagnvart þessu skuggalega fyrirtæki, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og hvort við höfum enga ástæðu til að óttast það að illvilji af hálfu þeirrar stofnunar valdi okkur einhverjum búsifjum í framtíðinni.