138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

287. mál
[18:15]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fleiri spurningar um þetta mál. Þetta er náttúrlega ekki einfalt mál og mörgum spurningum þarf að svara. Ég tel ekki eins og heimsskipanin er í dag að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kæmist upp með það að beita Íslendinga einhverjum efnahagslegum refsiaðgerðum. Ég tel að málstaður Íslendinga eins og hann er í dag gagnvart nágrannaþjóðunum hafi verið nægilega vel kynntur til að fólk geri sér grein fyrir stöðu okkar og geri sér grein fyrir því hvers konar samfélag er hér. Ef það kemur fram skýr vilji af Íslendinga hálfu til að reyna að leysa málin með ábyrgum hætti án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þá mundu, ég segi ekki heimsbyggðin, þær þjóðir sem þurfa taka fullt tillit til þess. Ég leyfi mér að vona að við búum ekki í það vondum heimi — þó að vissulega birtist hann manni oft sem slíkur — að Íslendingar mundu þurfa að sæta refsiaðgerðum af hálfu nágrannalanda eða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Við skulum ekki gleyma því að eitt það sem gerir það að verkum að efnahagslífið kemst ekki á fullan snúning er það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur bannað ríkissjóði að taka lán til framkvæmda þannig að ekki er verið að fara út í t.d. þær vegaframkvæmdir eða jarðgangagerðir sem menn hafa óskað vegna þess að gjaldeyrissjóðurinn stendur einfaldlega í vegi fyrir því. Hann segir: Þið getið farið út í þessar framkvæmdir ef þær eru í einkaframkvæmd, ef einkafyrirtæki sjá um þær. Þið getið byggt virkjanir ef einkafyrirtæki sjá um það. En ríkissjóður má ekki taka lán. Þarna stendur hann einfaldlega í vegi fyrir því að hér náist að rífa upp efnahagskerfið eins og þarf og þó að menn geti haft alls konar skoðanir á jarðgöngum og vegaframkvæmdum sem slíkum þá er þetta dæmi um hvernig hann stendur í vegi fyrir því sem þarf að gera, þ.e. að það komist hér á efnahagsstefna sem sé almenningi og þjóðinni fyrst og fremst til hagsbóta.