138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

287. mál
[18:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, frummælanda þessarar tillögu, fyrir að hafa flutt hana hér og fagna því frumkvæði sem þeir þingmenn sem á tillögunni eru sýna með henni. Því að það er aldrei hugað að of mörgum hlutum þegar við ræðum um endurreisn Íslands. Í raun er mjög sérkennilegt, vil ég leyfa mér að segja, að við séum ekki nú þegar komin með eitthvert plan eða áætlun sem við gætum skoðað til hliðar við það plan sem við erum með núna. Ég fagna því að þetta er komið fram og vona að stjórnvöld, stjórnarherrarnir í dag taki þessu vel og setji kraft í að vinna þessa áætlun, því að sjálfsögðu er það þannig að ef við getum komist hjá því að vera upp á aðra komin þá eigum við að sjálfsögðu að reyna það.

Ég tel ekki að í þessu felist yfirlýsing um að hér eigi að vísa einhverjum í burtu einn, tveir og þrír eða eitthvað slíkt. Það er örugglega sameiginlegt markmið alla vega flestra sem vinna í þessum sal að komast hjá því að þurfa að reiða sig á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eins og aðra. Því er mjög skynsamlegt að hefja vinnu við að gera efnahagsáætlun sem gerir ráð fyrir því að við getum án þess tækis verið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er.

Auðvitað er það rétt sem komið hefur fram að menn fóru að sjálfsögðu nauðbeygðir á sínum tíma til að leita aðstoðar hjá þessum sjóði en síðan eru liðnir nokkuð margir mánuðir og við getum haft alls konar skoðanir á því hvað búið er að gera vel og hvað ekki og hver forgangsröðunin hefur verið og allt slíkt en eftir stendur að við erum enn, ef maður skilur rétt það sem stjórnvöld eru að vinna, í prógrammi með þessu apparati, sem ég vil leyfa mér að kalla þennan sjóð.

Ég verð, frú forseti, að taka undir með þeim sem hafa gagnrýnt vinnubrögð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem við höfum orðið áþreifanlega vör við varðandi uppbyggingu landsins, þegar við ræðum um Icesave og allt sem því tengist. Við fáum líka misvísandi skilaboð frá sjóðnum. Bent er á Norðurlönd eða einhverja aðra sem vondu karlana, ef má orða það þannig, sem eru að reyna að stoppa framgang efnahagslífsins og þjóðlífsins en svo eru aðrir sem benda á sjóðinn og ég held með réttu að þarna sé í raun kominn hinn armurinn af þeim sem reka og stýra efnahagsmálum og þjóðlífinu.

Ef reynsla annarra af því að fara í prógramm með því efnahagstæki sem þessi sjóður virðist vera er mjög slæm þá hljótum við að leggja enn meiri áherslu á að komast út úr prógramminu sem allra fyrst en það verður að sjálfsögðu að gerast að yfirveguðu ráði, eins og ég tel að verið sé að gera með þessari tillögu. Ég tel að verið sé að setja fram mjög yfirvegaða og skynsamlega tillögu. Góður tími er gefinn til að vinna þessa áætlun enda er það mjög mikilvægt. Ég hugsa að við fengjum ekki mjög góða niðurstöðu ef við ætluðum að gera þetta í einhverjum flýti. Við þekkjum það úr þinginu að þegar þingið er að flýta sér og málin koma jafnvel aftur inn til okkar eða þegar reynt er að koma vonlausum samningum í gegnum þingið aftur og aftur og aftur. Það eru góðkunningjar okkar á Alþingi. Ég vona því að vel verði í þetta þarfa og góða mál tekið því að ég lít svo á að þetta sé til þess fallið að flýta því að við förum út úr því prógrammi sem við erum í. Það kann að vera að þetta verði þrýstingur á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að huga að vinnubrögðum sínum og stöðu en auðvitað, eins og fram kemur, ber okkur að gera þetta af skynsemi og yfirvegun og ég styð því þetta mál alveg heils hugar og vil að það komi skýrt fram.