138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

287. mál
[18:23]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég tel einsýnt að samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verði endurskoðað. Þegar til þess var stofnað voru uppi ákveðnar aðstæður, bæði hér á Íslandi og eins í nágrannalöndum okkar, bæði vestan hafs og austan. Yfir heiminum vofði fullkomið hrun fjármálakerfa og aðgerðir og áætlanir tóku að sjálfsögðu mið og mark af því sem fram undan gat verið.

Blessunarlega hefur í það minnsta ekki enn farið svo að heimurinn hafi hrunið. Enn þá eru starfandi fjármálastofnanir bæði austan hafs og vestan og ýmislegt sem bendir til þess að menn hafi komist í gegnum það versta hvað varðar lausafjárkrísuna sem var á góðri leið með að fella bankakerfið. Margt erfitt er þó eftir. Sú staðreynd er eftir að skuldir ríkissjóða bæði Evrópuríkja og Bandaríkjanna eru geigvænlegar. Það er hreint og beint óhugnanlegt að horfa á hvernig ríkissjóður Bandaríkjanna er staddur. Næstum því öll þau lönd sem eru hluti af evrusvæðinu eru komin út fyrir Maastricht-skilyrðin þegar kemur að halla á ríkissjóði og skuldasöfnun þannig að það er langt í frá að það sé beinn og breiður vegur fram undan.

En hvað varðar okkur Íslendinga þá er, eins og ég sagði áðan, alveg nauðsynlegt að endurskoða þessa samvinnu og fyrir því eru ýmis rök. Í þingsályktunartillögu sem við sjálfstæðismenn lögðum fram fyrir nokkrum mánuðum um aðgerðir í efnahagsmálum var einmitt sérstaklega kveðið á um að nauðsynlegt væri að endursemja við sjóðinn og breyta þeim áætlunum og fyrirætlunum sem lágu fyrir hvað varðaði það lánsfé sem við þyrftum á að halda. Við vorum þeirrar skoðunar að sennilega væri verið að taka of mikið fé að láni, það þyrfti ekki jafnmikil og stórfelld lán og það þyrfti fyrst og fremst að horfa til þess að tryggja aðgang að lánalínum, því að mínu mati er það hættulegur leikur að ætla sér að hrúga gríðarlegum fjármunum inn á reikning í Seðlabankanum og hafa þá sem einhvers konar tæki til að hafa áhrif á gengi íslensku krónunnar. Ég tel að það geti farið allt á verri veg og orðið okkur mjög dýr æfing. Ég er þeirrar skoðunar að það hvenær áætlunin var gerð og hvernig aðstæður hafa verið að breytast kalli í það minnsta á endurskoðun.

Síðan er það hitt að framkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi er auðvitað óásættanleg. Það er ekki hægt að sætta sig við það að sjóðurinn hafi með þeim hætti sem raun ber vitni tengt saman Icesave-málið, deilu okkar við Hollendinga og Breta, og framgang þeirrar áætlunar sem lagt var upp með. Frægt er auðvitað bréf það sem Dominique Strauss-Kahn skrifaði eftir að hafa fengið bréf frá Gunnari leikstjóra Sigurðssyni þar sem hann benti á að vandinn fælist í því að Norðurlöndin vildu ekki fjármagna þetta prógramm nema fyrir lægi að Íslendingar hefðu gefist upp fyrir Hollendingum og Bretum. Auðvitað gerir það eitt og sér það að verkum að flestum finnst það eiginlega óþolandi hugmynd yfir höfuð að fá lán á slíkum forsendum. Það er vonandi að viðhorfið sé að breytast hjá norrænu ríkjunum og menn þar séu að átta sig á því að málið sé ekki þannig, eins og ég hef heyrt marga þingmenn frá þingum Norðurlandanna halda fram, að Íslendingar skuldi peninga og verði að borga þá áður en lengra er haldið. Þegar menn hafa áttað sig á því að þannig er þetta ekki, það er ekki þannig að Íslendingar hafi tekið lán sem þeir vilja ekki endurgreiða heldur er þetta einmitt þannig að það leikur alveg gríðarlegur vafi á því og reyndar benda öll rök til þess að okkur beri ekki lögum samkvæmt að greiða þessa upphæð, þá að sjálfsögðu sjá menn málið í allt öðru ljósi. Þegar við bætist síðan mikill og ríkur vilji Íslendinga til að leysa málið með sanngjörnum hætti og rausnarlegum, leyfi ég mér að segja, þá hefur maður heyrt það að margir þingmenn á þingum Norðurlandanna hafi skipt um skoðun og séu farnir að horfa á þetta mál með öðrum hætti en þegar nánast engar upplýsingar um þetta mál höfðu borist til þessara sömu þingmanna.

Það er eðlilegt að við Íslendingar gerum athugasemd við það hvernig þetta mál hefur gengið fyrir sig. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á eðli sínu samkvæmt hvorki að taka afstöðu í svona deilum né að ganga erinda einstakra þjóða í deilum við aðrar þjóðir og það er alveg eðlilegt að við skoðum þetta.

Ég er þeirrar skoðunar að þessu sögðu að það sé ágæt hugmynd að ríkisstjórnin ráðist í það verk í góðri samvinnu við Alþingi að stilla upp valkostum og menn sjái þá hverjir þeir eru. Hvernig viljum við gera þetta? Ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kemur ekki með okkur, ef það fæst ekki lausn í málið við Breta og Hollendinga, hvað ætlum við þá að gera? Við þurfum að eiga einhvers konar vegvísi um það hvert verður haldið. Við sjálfstæðismenn höfum nú þegar stillt upp efnahagsprógrammi með minni aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem þeirra prógramm er skalað niður, þar sem við erum fyrst og fremst að tryggja það að ríkið hafi aðgang að erlendum lánum í gegnum lánalínuna þannig að öruggt sé að íslenska ríkið verði ekki fyrir greiðslufalli. Út á það gengu t.d. tillögur okkar sjálfstæðismanna en í þeim er kannski jafnlangt gengið og í því sem hér liggur að baki, að það endi með því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fari í burtu. Að sjálfsögðu verður það þannig að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun fara héðan og því fyrr því betra en ég tel rétt að við nýtum okkur þá möguleika sem við höfum ef þeir eru í alvörunni í boði. Ég er ekki tilbúinn til að fórna hverju sem er bara til að fá lán frá þessum sama sjóði bara til að geta sagt: Heyrðu, ég gaf frá mér rétt minn í þessari stóru deilu okkar við Breta og Hollendinga bara til að fá lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er útilokað að við látum bjóða okkur slíkt.

Síðan er það hitt að ég er sannfærður um það, frú forseti, að við Íslendingar eigum mjög góða möguleika á að endurreisa hagkerfi okkar með eða án Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég held að það sé auðveldara ef við getum samið um aðgang að lánalínum og sýnt umheiminum að íslenska ríkið getur örugglega staðið í skilum næstu árin með allar erlendar skuldbindingar sínar. Það er auðvitað til bóta. Ég tel eins og ég sagði áðan ekki rétt að við byggjum einhvern risagjaldeyrisvarasjóð, ég held að það sé ekki skynsamlegt. En síðan snýr þetta allt að því hvað við ætlum að gera í stjórn efnahagsmála okkar. Ætlum við t.d. að nota tækifæri okkar varðandi orkufrekan iðnað? Við höfum t.d. rætt aftur og aftur um Helguvík þar sem við eigum möguleika á að fá inn arðbærar erlendar fjárfestingar sem styrkja gengi krónunnar, draga úr atvinnuleysi og auka tekjur ríkissjóðs, við erum í mjög erfiðri stöðu og þurfum einmitt á svona verkefnum að halda. Það má vel halda því fram að við höfum kannski ekki þurft jafnmikið á þeim að halda þegar allt gekk vel og menn fóru í stórar framkvæmdir á sínum tíma. Ég skal alveg vera tilbúinn til að fara í þá umræðu alla. En núna þurfum við á því að halda. Það er þannig. Við eigum að grípa það tækifæri sem við höfum. Við höfum fleiri tækifæri. Það sem okkur vantar, frú forseti, er samhæfð stefna og sterkur vilji hjá ríkisstjórninni til að takast á við efnahagsmálin. Það er ekki þannig í þessu máli að stjórnarandstaðan hafi þvælst fyrir eða ekki haft nein úrræði sjálf.

Flokkarnir sem eru í stjórnarandstöðu hafa ýmist komið með mál eins og hér er lagt fram þar sem kallað er eftir skipulagi, þar sem kallað er eftir efnahagsplani eða, eins og t.d. Sjálfstæðisflokkurinn svo ég tali fyrir minn flokk, lagt fram útfærðar, útreiknaðar tillögur um það hvernig við eigum að takast á við þessi mál, bæði ríkisfjármálin og efnahagsmálin almennt. Frú forseti. Hér eru engir ráðherrar viðstaddir til að hlusta á þetta og ég held að það sé ekki einn einasti þingmaður stjórnarliðsins í salnum núna til að ræða þetta mikilvæga mál. Það sem vantar er alvöru vilji, geta og afl til að hrinda þessum hlutum í framkvæmd af því að við Íslendingar eigum mikla möguleika á að vinna okkur hratt og vel út úr þessu. Hvers vegna í ósköpunum nýtum við okkur það ekki? Af hverju er ekki hlustað betur, frú forseti, þegar forseti ASÍ, talsmenn Samtaka atvinnulífsins og hv. stjórnarandstöðuþingmenn koma fram með tillögu eftir tillögu, hugmynd eftir hugmynd um það hvernig eigi að taka á þessum málum? Af hverju gengur ríkisstjórninni svona illa að framkvæma? Þetta er jú einu sinni framkvæmdarvaldið, þeirra er valdið til að framkvæma og þá skiptir máli að það sé nýtt. Ég er ekki þeirrar skoðunar að við eigum að henda Alþjóðagjaldeyrissjóðnum út einn, tveir og þrír, en ég get vel stutt það að menn búi til áætlun um það hvernig við eigum á að halda ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vill ekki vinna með okkur Íslendingum. Ef sú hótun er alltaf undirliggjandi að ef við föllumst ekki á ýtrustu kröfur Breta og Hollendinga þá getum við ekki unnið og fáum ekki afgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þá verður svo að vera og við þurfum auðvitað að vera undir það búin hvernig á að takast á við það, það er hið ágæta í þessari tillögu. (Forseti hringir.)