138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

287. mál
[18:38]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt, það er mjög nauðsynlegt að menn hafi reynslu og yfirsýn yfir flókna hluti, fjármálamarkaði og annað slíkt, og það er styrkur Alþingis að hér eru margir hv. þingmenn sem hafa mjög mikilsverða og verðmæta reynslu úr atvinnulífinu sem síðan hjálpar okkur við lagasetningu til að búa til lög sem hafa þau áhrif sem við viljum að þau hafi.

En hvað varðar sérstaklega þetta mál er það þannig að við sjálfstæðismenn fyrir margt löngu síðan, fyrir bráðum hálfu ári, lögðum einmitt fram mjög útfærðar hugmyndir um breytingar á samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er því svo þegar kemur að stefnu Sjálfstæðisflokksins að menn hafa farið mjög gagngert í gegnum þessa umræðu alla, þekkja hana mjög vel og hafa því lagt fram, eins og ég sagði áðan, tillögur um breytingar. Munurinn á tillögu okkar og því sem hér er verið að ræða er sá að við höfum sagt: Við viljum minnkað prógramm með sjóðnum sem tryggir það að við höfum aðgang að erlendu lánsfé þannig að við höldum áfram samstarfinu. En það sem ég er að segja, og á að vera orðið alveg skýrt fyrir alla hv. þingmenn, að ef sjóðurinn neitar að vinna með okkur, ef hann ætlar sér að vera áfram í innheimtuhlutverki fyrir Breta og Hollendinga, verðum við náttúrlega að eiga aðra úrkosti. Og ef túlka má þá tillögu sem hér liggur fyrir þannig að menn ætli bara að búa til prógrammið, tel ég það skynsamlegt. Það sem er svolítið að í þessu er að ég hef skilið það á umræðunni frá tillöguflytjendum að menn horfa á þetta í svolítið stærra samhengi, þ.e. að sjóðurinn eigi að fara héðan sem fyrst. Það er ekki minn tilgangur. (Forseti hringir.) Tilgangur minn er sá að geta unnið með þeim en ef þeir vilja ekki vinna með okkur þá er ekkert um það að ræða.