138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Á síðasta ári var boðið upp á sumarannir fyrir stúdenta Háskóla Íslands. Þúsund nemendur nýttu sér námið og náðu sér í dýrmætar einingar yfir sumartímann. Þessir stúdentar hefðu að öðrum kosti verið atvinnulausir, enda voru atvinnuhorfur í þjóðfélaginu heldur daprar þá og ekki í sjónmáli að þær batni í náinni framtíð.

Sumarannir voru svar við bágu atvinnuástandi þar sem gripið var til aðgerða til varnar stúdentum. Það var góð ákvörðun hjá menntamálaráðherra að bjóða upp á sumarannir. Nú er svo komið að ekki stendur til að bjóða upp á lánshæf námskeið í Háskóla Íslands í sumar. Jafnframt liggur fyrir að réttur námsmanna til atvinnuleysisbóta hefur verið afnuminn og horfur á atvinnu fyrir námsmenn eru mjög litlar. Aldurshópurinn 20–34 ára er einmitt langstærsti hópurinn á atvinnuleysisskrá og þetta er jafnframt það fólk sem flytur hvað mest úr landi.

Okkur þingmönnum barst bréf í morgun frá námsmanni sem sagði, með leyfi forseta:

„Þetta ástand vekur örvæntingu meðal námsmanna, sérstaklega þeirra sem ekki hafa bakland í fjármálum og þeirra sem þurfa að standa skil á húsnæðislánum og öðrum lánum.“

Mig langar til að spyrja hv. formann menntamálanefndar, Oddnýju G. Harðardóttur: Er það rétt að ekki verði boðið upp á sumarannir við Háskóla Íslands? Og ef svo er, hver er ástæðan að baki þeirri ákvörðun? Einnig langar mig að spyrja: Hvað eiga tekjulitlir námsmenn að gera í sumar sem ekki hafa rétt til atvinnuleysisbóta eða náms? Hver er lausn hv. þingmanns og formanns menntamálanefndar á því ástandi sem nú blasir við námsmönnum?