138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í fyrravor var gerð athugun á áhuga námsmanna til að stunda sumarnám og samkvæmt þeirri könnun voru allmargir tilbúnir í slíkt. Aðsókn reyndist hins vegar mun minni en spáð var en Háskóli Íslands hefur þó ekki formlega gefið það út að lánshæf sumarnámskeið verði ekki haldin í ár.

Síðastliðið haust tóku gildi breytingar um LÍN og Atvinnuleysistryggingasjóð sem fól í sér hækkun mánaðargreiðslna námslána úr 100 þúsund í 120 þúsund samhliða því að réttur námsmanna til atvinnuleysisbóta var afnuminn. Samráð og sátt var um þetta málefni hjá menntamálaráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneyti og námsmannahreyfinga. Breytingarnar byggðu m.a. á reynslu frá því í fyrra sem sýndi að nýting þeirra lánshæfu námsúrræða sem í boði voru reyndist langt undir væntingum (EÓÁ: Þúsund manns.) auk þess sem umtalsverður fjöldi sumarstarfa var ómannaður þrátt fyrir atvinnulausa námsmenn á bótum. Vegna þess hóps námsmanna sem ekki átti framfærsluúrræði vegna þessa var gert ráð fyrir að framfærsluskylda sveitarfélaga gæti mögulega aukist og því eru í undirbúningi reglur sem munu gera sveitarfélögum kleift að sækja um sérstaka styrki til átaksverkefna á þeirra vegum fyrir námsmenn. Reglur um slíkt eru væntanlegar á næstu vikum. Þetta er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem gengið hefur undir nafninu Ungt fólk til athafna og er ætlað að hvetja ungt fólk til virkni frekar en aðgerðaleysis.