138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt að bensínverð á Íslandi hefur hækkað umtalsvert, en gætum að því að ef ekki hefði orðið hrun á íslenskum gjaldmiðli væri bensínlítrinn 15 kr. ódýrari en hann er í dag, einhvers staðar á bilinu 185–190 kr. Gætum að því að bensínverð á Íslandi er 40–50 kr. lægra en það er í samanburðarlöndunum vegna þess að skattar ytra á bensín eru hærri.

Kaupmáttur er vissulega lægri hjá Íslendingum og af hverju er það? Vegna þess að gengi krónunnar hefur hrunið sl. eitt og hálft ár. Næstum allt sem íslensk fjölskylda kaupir inn er dýrara og fjárhagur ríkisins er í rúst. Ég reyni að tala mildilega um þetta en eftir 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins er fjárhagur ríkisins í rúst og þess vegna þurfum við að hækka skatta í þessu landi. (Gripið fram í.)

Það sem ég segi er: Halli ríkissjóðs var 200 milljarðar þegar núverandi ríkisstjórn tók við, við erum búin að ná honum niður í 100 en við þurfum að gera enn betur. Krónan missti helming af verðgildi sínu og ég segi við Sjálfstæðisflokkinn: Ef þið viljið í raun og veru lækka kostnað heimilanna, lækka verð á bensíni, sykri eða cheeriosi, komið þá með okkur í þessa vegferð og skoðum það hvort við eigum ekki að taka upp nýjan gjaldmiðil í þessu landi. (Iðnrh.: Heyr, heyr.) Við getum orðað þetta svona: Þessi króna (Gripið fram í.) er ágæt nema fyrir þær fjölskyldur (Gripið fram í.) sem kaupa vörur frá útlöndum, nema fyrir þær fjölskyldur sem langar að ferðast og nema fyrir þær fjölskyldur sem skulda í þessu landi. Ég spyr Sjálfstæðisflokkinn: Fyrir hvaða fjölskyldur eruð þið að berjast? (SII: Heyr, heyr.)