138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Til að ná þeim hagvexti sem nauðsynlegur er til að endurreisa íslenskt samfélag á næstu árum er mikilvægt að skapa hér um 25–30 þúsund störf. Þetta er nauðsynlegt til þess að ná þeim aukna hagvexti sem við verðum að fá og til að skapa þau útflutningsverðmæti sem þurfa að vera til staðar. Það má segja að skattpeningastefna stjórnvalda virki alveg þveröfugt á þetta. Það kemur í ljós nú þegar á fyrstu vikum þessa árs að þessir auknu skattar skila sér ekki til ríkissjóðs heldur skila þeir sér í svartara hagkerfi og þverrandi skatttekjum.

Það er alveg sama hversu löngum tíma við eyðum í að ræða um allar þær nauðsynlegu, félagslegu aðgerðir sem þarf að grípa til, ef við náum ekki að efla hér atvinnustigið sitjum við áfram með það vandamál í fanginu. Það mun ekki gera annað en að aukast og endar í einhverjum spíral aukins atvinnuleysis og verri afkomu. Það eru nokkur atriði sem hægt er að grípa til strax til þess að efla íslenskt atvinnulíf og það er sorglegt að horfa á að ríkisstjórnarflokkarnir skuli ekki koma sér saman um að fara í þau verkefni. Það má nefna orkufrekan iðnað. Það er hægt að fara strax í Búðarhálsvirkjun og Hverahlíðarvirkjun, ekki með einhverjum smáskömmtum eins og þessi ríkisstjórn hefur nú boðað heldur af fullum krafti. Það er hægt að fara í samgöngumannvirki og það er áhugavert að heyra hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson tala um hversu mikilvægt það er að halda uppi háu framkvæmdastigi í samgöngumannvirkjum. Verkefni upp á 8,4 milljarða voru sett á ís þegar þessi ríkisstjórn tók við, það er hægt að setja þessi verkefni af stað aftur.

Ríkisstjórnin nefnir gjarnan að það sé ekki hægt að fjármagna þessi verkefni. Lífeyrissjóðirnir hafa lýst sig tilbúna til þess að fjármagna þessi verkefni, þetta eru verkefni upp á eina 60 milljarða, í lífeyrissjóðunum eru 1.800 milljarðar. Þeir fundir sem haldnir hafa verið með lífeyrissjóðunum af hálfu ríkisstjórnarinnar hafa valdið vonbrigðum fram að þessu og ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir hafa ekki gengið fram með þeirri (Forseti hringir.) sátt sem var að finna í stöðugleikasáttmálanum. Það er kominn tími til, hæstv. forseti, að þessi ríkisstjórn fari að taka til höndum. Ég held reyndar að hún sé ekki þess fær, (Forseti hringir.) það er komið í ljós, það verða aðrir sem geta sýnt meiri ábyrgð hér og ættu að taka við stjórn landsins.