138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu um að hlutfall hvors kyns í stjórnum félaga og einkahlutafélaga með fleiri en 50 starfsmenn skuli ekki vera lægra en 40% í lok árs 2013. Þetta ákvæði á ekki við um opinber hlutafélög. 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna leggur þessa skyldu á öll opinber hlutafélög en ekki aðeins opinber hlutafélög sem eru með fleiri en 50 starfsmenn. Markmið kynjakvótans í lögum um hlutafélög og einkahlutafélög er ekki að takmarka þetta ákvæði í jafnréttislögum og því legg ég fram þessa breytingartillögu.

Í frumvarpinu sem nú er komið til 3. umr. er að finna ákvæði sem eiga í fyrsta lagi að tryggja gagnsæi á eignarhaldi fyrirtækja, í öðru lagi að styrkja sjálfstæði stjórnarmanns og í þriðja lagi að jafna hlut karla og kvenna í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga.

Ákvæði um 40% kynjakvóta í stjórnum félaga með fleiri en 50 starfsmenn í lok árs 2013 er fyrst og fremst nauðvörn. Vorið 2009 voru konur 19,8% stjórnarmanna hlutafélaga. Nú eru komnar fram upplýsingar um að hlutfall kvenna í stjórnum rekstrarfyrirtækja og fjármálafyrirtækja fari lækkandi en ekki hækkandi og því þarf að grípa til kynjakvótans. Endurmótun atvinnulífsins verður að fara fram á forsendum kvenna jafnt sem karla. Annað er óásættanlegt, ekki síst í ljósi þess að rannsóknir sýna að fyrirtæki sem stofnuð eru af báðum kynjum eru líklegust til að lifa af og arðsemi er meiri í fyrirtækjum með blandað stjórnendateymi.