138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:19]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er lengi hægt að koma manni á óvart hérna en ég er mjög hissa á því hvað Sjálfstæðisflokkurinn er andsnúinn þessari tillögu. Ég átta mig ekki á því á hvaða vegferð Sjálfstæðisflokkurinn er í jafnréttismálum. Hér hefur atvinnulífið sjálft sagst vilja fá þetta hlutfall kvenna upp í 40% árið 2013, atvinnulífið sjálft hefur kallað eftir því. Þá hlýtur atvinnulífið að meina eitthvað með því.

Atvinnulífið fékk alla stjórnmálaflokka til að vera með á slíkri yfirlýsingu og svo kallast þetta núna að við séum með einhverjar hótanir um lagasetningu ef við ætlum að setja þetta í lög. Við viljum bara að það sé alveg klárt að þessu verði náð, þess vegna setjum við þetta í lög, að sjálfsögðu.

Ég spyr hv. þingmann sem hér talaði áðan, Ragnheiði Elínu Árnadóttur: Ef atvinnulífið vill þetta og hvetur til þess, af hverju (Forseti hringir.) má þá ekki setja það í lög?