138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta hlutfall hefur lækkað og þess vegna brugðust þessi samtök sem ég nefndi áðan og allir stjórnmálaflokkar við með því að gera með sér samning um að setja sér þetta markmið af fúsum og frjálsum vilja. Þess vegna finnst mér algjörlega óþarft að setja þetta í lög núna.

Hv. þingmaður spyr: Er það svo agalega hræðilegt að setja þetta í lög? Mér finnst agalega hræðilegt að setja lög sem, eins og ég benti á áðan, er engin leið til að bregðast við ef þeim er ekki fylgt. Ég spurði af hverju við kæmum ekki okkar eigin húsi í lag áður en við færum að setja kvaðir á aðra. Það er allt í ólagi í opinberum rekstri í þessum málum.

Ég hefði haldið að ríkisstjórn þeirra flokka sem hæst hafa talað um þessi mál ætti fyrst að einbeita sér að því að laga (Forseti hringir.) það sem hún hefur nú þegar vald á áður en farið er að útvíkka eitthvað sem var þegar í þeim farvegi að fólkið lagfærði það sjálft.