138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Bara til að forða öllum misskilningi er ég ekki sérstaklega refsingaglöð manneskja. Ég er ekki að gagnrýna að ekki sé viðurlagaákvæði í þessum lögum vegna refsingagleði. Það sem ég var að segja og vil benda á er að það er engin leið til að tryggja að farið verði eftir þessum lögum, nákvæmlega eins og það er ekki farið eftir þeim lögum sem sett hafa verið um stjórnir opinberra fyrirtækja.

Ég nefndi hér fullt af dæmum um fyrirtæki sem eru í umsjá og á forræði ríkisins og stjórnir sem er ekkert meira jafnrétti í en það sem þingmaðurinn er að gagnrýna. Þess vegna segi ég að við ættum að taka til heima hjá okkur áður en við förum lengra.

Varðandi Noreg er alveg rétt að hlutfallið fór upp en það er ýmislegt sem hefur verið gagnrýnt í Noregi, til að mynda það að ákvarðanir hafa færst frá (Forseti hringir.) stjórnarborðinu og eitthvað annað. Það er sú hræsni sem ég óttast og það árangursleysi ef við gerum þetta þvingað í staðinn fyrir að gefa þessum (Forseti hringir.) samningi séns á að taka gildi sjálfur.