138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það réttlætir ekki það að beita ekki sömu aðferðum, segir hv. þm. Guðbjartur Hannesson. Ég segi nú bara við þessu: Fyrst þingmaðurinn viðurkennir að hlutirnir eru ekki eins og þeir eiga að vera hjá ríkinu, af hverju í ósköpunum eigum við þá að fara að beita sömu aðferðum á einkageirann fyrr en við erum búin að tryggja að þetta gangi a.m.k. upp í ríkisrekstrinum? (GuðbH: Til að skilaboðin séu almenn.) Skilaboðin geta verið alveg kristaltær. Ég segi það hér og segi það aftur og segi það enn: Við þurfum að auka hlut kvenna í stjórnum og við stjórnun fyrirtækja á Íslandi. Þar erum við öll sammála. En hvernig gerum við það? Með lagasetningu sem ég er að benda á að hefur ekki gengið upp í hinu opinbera kerfi mun það ekkert ganga betur í viðskiptalífinu. Það er það sem ég er að segja. Við eigum heldur að hvetja til þess. Við getum farið alls konar (Forseti hringir.) leiðir til að gera þetta þannig að við verðum sammála. Ég neita því að (Forseti hringir.) einhver úrtölurödd heyrist hjá þeirri sem hér stendur og (Forseti hringir.) að ég vinni gegn jafnrétti. Það er rangt.