138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í upphafi mótmæla því að ég sé með mótmælum mínum við þetta frumvarp að segja að ég sé andvíg því að á atvinnulífið séu sett lög. Ég bið hv. þingmann að gera mér ekki upp þá skoðun. Það sem ég er að segja og segi það eina ferðina enn er (Gripið fram í.) að í þessu samhengi getum við öll tekið höndum saman nákvæmlega eins og gert hefur verið af þeim stjórnmálaflokki sem ég er fulltrúi fyrir, þeim stjórnmálaflokki sem hv. þm. Eygló Harðardóttir er fulltrúi fyrir, þeim sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir er fulltrúi fyrir og sem hv. þm. Magnús Orri Schram er fulltrúi fyrir. Ég veit ekki um hv. þm. Þráin Bertelsson, hvort hann sé fulltrúi í þessum samningi.

Ég er ekki að boða að ekki megi setja nein lög í landinu. Ég er að segja um þetta ákvæði og þetta atriði að ég tel einsýnt (Forseti hringir.) að það verði betur til þess fallið að ná árangri ef menn eru hvattir og við tökum höndum saman en með svona lagabókstaf.