138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir er ég bara mjög ánægð með að við skulum vera ósammála í þessu samhengi. Við verðum ekki sammála um þessa aðferð, jafnvel þótt við séum, og það hefur komið hér ítrekað fram, sammála um þetta markmið. Það að setja megi lög um ákveðin atriði og ekki lög um önnur atriði, já, ég geri greinarmun á hlutum sem þarf að setja í lög og þeim sem ekki þarf að setja í lög. Ég er algjörlega hlynnt því, þó að einhverjum finnist það skerða frelsi sitt, að setja lög um að við eigum að vera í bílbelti og setja börnin í bílstól þó að það hefti frelsi barnanna í bílnum — vegna þess að það er skynsamlegt (Gripið fram í.) og dregur úr slysum. Ég nefni þetta dæmi einfaldlega vegna þess að það er mjög myndrænt og hv. þingmaður hlýtur að sjá að það skiptir máli við hvað eigum þegar við erum að tala um hvað eigi að fara í lög (Forseti hringir.) og hvaða markmiðum við getum náð með öðrum hætti.