138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í fyrsta lagi koma hér upp til að lýsa furðu minni á þeim ummælum hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur að ég hafi verið í hópi þeirra þingmanna sem ekki vildu setja lög á fjármálafyrirtæki. Ég spyr hv. þingmann hvort hún hafi eitthvað fyrir sér í því. Og í annan stað hvort það hafi verið virkilega þannig að mati þingmannsins að hér hafi ekki verið lög um fjármálafyrirtæki í gildi í landinu. Það getur vel verið að eitthvað hafi brugðist í þeim lögum og Evróputilskipunum sem við uppfylltum en ég alla vega minnist þess ekki að hér hafi ekki verið sett lög um fjármálafyrirtæki fyrr á tíð.

Í öðru lagi þakkaði hv. þingmaður framsóknarmönnum fyrir að vera með á þessari tillögu — og er það mér svo sem alveg að meinalausu — og sagðist hún fagna því eða vissi að þar innan borðs væru margir jafnréttissinnar. Ég vil upplýsa hv. þingmann um það að innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins eru mjög margir ef ekki allir þingmenn, leyfi ég mér að fullyrða, miklir jafnréttissinnar. Það að við styðjum ekki þetta frumvarp gerir mig eða aðra þingmenn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, leyfi ég mér að fullyrða við hv. þingmann, ekki að minni jafnréttissinnum en hv. þingmaður telur sig sjálfa vera.

Þetta vildi ég segja vegna þess að eins og ég hef margítrekað í þessari umræðu er ég mjög mikill jafnréttissinni, ég er mjög fylgjandi því að við aukum hlutfall kvenna og jöfnum það sem víðast í atvinnulífinu, í stjórnmálalífinu, ekki vegna þess að ég telji að okkur sé betra að hafa einhverjar hausatalningar heldur vegna þess að ég trúi því að þegar við fáum bæði sjónarmiðin fram í hvaða umræðu (Forseti hringir.) sem er er það okkur öllum til heilla. Við erum ósammála um aðferðafræðina, hv. þingmaður.