138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi umræða hefur farið dálítið um víðan völl, við erum farin að analýsera, þetta frumvarp á núna að fara að koma í veg fyrir að karlmenn fari í fangelsi, það er þá svo sem ágætishliðarmarkmið með því.

Ég verð að segja að áhersla á kvenfrelsi er kannski ekki það sem ég mundi leggja mesta áherslu á í jafnréttisbaráttunni vegna þess að jafnréttisbaráttan — ég held að það hafi verið það sem hv. þingmaður átti við þegar hún tók þessi dæmi — verður að ganga í báðar áttir. Í mínum huga snýst jafnréttisbaráttan fyrst og fremst um einstaklingsfrelsi og það að við höfum jöfn tækifæri.

Mér að meinalausu má alveg vera eitthvert rót á hlutföllum í hinum einstöku nefndum, ráðum, bæjarstjórnum eða hvernig sem það er. Ég missi ekki svefn yfir því svo framarlega sem ég veit að fólk hefur jöfn tækifæri til að sækja sér þá menntun, það starf, þau tækifæri sem það sjálft kýs. Þá sef ég vel á nóttunni.

Hugsunin á bak við fæðingarorlofið — það er alveg rétt að það skerti frelsi okkar til þess að ákveða sjálf hvort foreldrið tæki fæðingarorlof. Og ég get alveg fullyrt að fæðingarorlofslögin hefðu aldrei komist í framkvæmd nema vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir því, (Gripið fram í: Nei, nei.) í góðu samstarfi við Framsóknarflokkinn. (Gripið fram í.) Ég skal eiga við hv. þingmann um þetta og ég skal taka margar ræður um það vegna þess að ég var nákvæmlega þar stödd sjálf og við bæði sem aðstoðarmenn ráðherra á þeim tíma.

Það sem ég vildi sagt hafa er að hugmyndafræði fæðingarorlofsins var einmitt að auka tækifæri karla til að vera með börnum sínum, (Forseti hringir.) til að við gætum þá sannarlega tryggt að jafnréttið byrjaði heima fyrir. (Forseti hringir.) Það er það sem við eigum að gera, ekki að raða konum og körlum jafnt í stóla (Forseti hringir.) við eitthvert ímyndað borð.