138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þm. Þráinn Bertelsson ætlar að styðja frumvarpið. Hv. þingmaður talaði um að hann teldi óheppilegt að binda allt í lög í mannlegu samfélagi. Ég tek heils hugar undir þá hófsömu afstöðu þingmannsins og tel að lagasetningu eigi ekki að beita af geðþótta, en ég tel að stundum þurfi löggjafinn að grípa inn í til að ná árangri í ákveðnum stefnumálum sem útséð er um að annars verði, því að hér erum við, eins og með svo margt annað í okkar ágæta samfélagi, að fjalla um völd. Því fylgja mikil völd að sitja í stjórnum og sá sem hefur völd gefur þau ógjarnan frá sér.

Það er fjöldinn að mjög frambærilegum konum sem sitja í stjórnum á Íslandi og þeim hefur fjölgað þó að þeim hafi síðan fækkað aftur. En þá er það þannig að oft er kunningjasamfélagið ansi sterkt og menn leita til félaga sinna sem þeir sitja með í öðrum stjórnum. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að við gefum skýr skilaboð um það frá Alþingi Íslendinga að við teljum að konur jafnt sem karlar eigi að hafa völd og áhrif í íslensku atvinnulífi.