138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:01]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er mjög gaman að hlusta á þá umræðu sem fer hér fram af því að hún er hápólitísk. Hún sker úr um það hvaða flokkar, hvaða stjórnmálaöfl og hvaða þingmenn vilja taka skrefið í átt að jafnrétti og hverjir vilja fara hægt og treysta á að hlutirnir gerist bara með sæmilega góðum vilja. Hér skilur svolítið á milli þeirra sem vilja vera róttækir, ganga ákveðið fram og þeirra sem vilja frekar taka minni skref og vera íhaldssamir þannig að það er mjög gaman að hlusta á þessa umræðu og ég verð að segja að mér finnst þetta vera svolítill frískur andblær.

Þegar þetta mál kom hingað inn frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, þá var það ákvæði sem við ræðum mest um núna ekki í frumvarpinu. Það var ekkert um það í frumvarpinu. Það átti að stefna að þessu hlutfalli en núna erum við að tala um að lögbinda það, fara hina svokölluðu norsku leið. Þingið er að taka af skarið og mér finnst svolítið merkilegt að halda því til haga. Þingið sýnir að mínu mati hvað það er að verða sterkara, ég leyfi mér að segja það, þ.e. að því gefnu að þetta verði samþykkt.

Þegar málið kom hingað inn tók hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir til máls í þessari umræðu, virðulegi forseti, og talaði mjög bratt fyrir því að efnahags- og viðskiptanefnd tæki það til skoðunar að setja inn lagagrein um að ná 40% kynjahlutfalli í stjórnum fyrirtækja árið 2013. Nefndin hefur skoðað það. Ég tek það fram að sú sem hér stendur er ekki í efnahags- og viðskiptanefnd en meiri hluti nefndarinnar leggur til að þetta kynjahlutfall verði tekið upp og í þeim meiri hluta er hv. þm. Eygló Harðardóttir sem situr þar fyrir hönd Framsóknarflokksins. Ég verð að segja að ég er alveg rosalega ánægð með að nefndin skuli taka þetta skref þrátt fyrir að það hafi ekki verið inni hjá hæstv. ráðherra, nefndin tók þetta upp, m.a. eftir ábendingu frá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur. Þetta er frískur andblær og sýnir að þingið getur tekið róttæk skref þegar þau eru réttlætanleg og það eru þau svo sannarlega í þessu tilviki.

Það má segja að þetta skref sé nokkuð róttækt enda eru nú við völd flokkar sem hafa jafnréttismál mjög hátt á stefnuskrá sinni. Það hafa framsóknarmenn líka, við höfum alltaf verið mjög ákveðin í okkar jafnréttismálum. Stundum hefur gengið mjög vel, stundum aðeins verr og núna erum við með níu manna þingflokk, þrjár konur og sex karla. Við þurfum aðeins að bæta hlutfall kvenna þannig að Framsóknarflokkurinn þarf að líta í eigin barm í ýmsu en það þurfa aðrir flokkar að gera líka. Við erum tilbúin til róttækni og að styðja þessa breytingu. En svo eru aðrir flokkar sem eru kannski aðeins hægfara, aðeins íhaldssamari. Við höfum heyrt fulltrúa Sjálfstæðisflokksins tala og hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur líður þannig og segir að hún sé mikill jafnréttissinni og ég efast ekki um að hv. þingmanni líði þannig en hún vill samt nota tæki sem virka hægar en þau tæki sem eru í boði núna. Það er alveg óumdeilt að það að setja lög mun hvetja fyrirtæki mjög til að taka til í sínum ranni, líklega meira en ef lögin væru ekki til staðar. Fyrirtækin eru samt öll af vilja gerð.

Eins og hér hefur komið fram er búið að undirrita samstarfssamning og fyrirtækin tóku frumkvæði að honum, sem er mjög gott. Félag kvenna í atvinnurekstri, Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins töldu nauðsynlegt að efla hlut kvenna í stjórnum íslensks atvinnulífs enda verður íslenska þjóðin að nýta mannauð sinn til fulls. Í samstarfssamningnum segir, með leyfi forseta:

„Á næstu fjórum árum munu þessir aðilar hvetja til þess og leggja ríka áherslu á að konum í forustusveit íslensks viðskiptalífs verði fjölgað þannig að hlutfall hvors kyns verði ekki undir 40% í lok árs 2013.“

Þessi samningur var undirritaður þann 15. maí 2009 af fulltrúum allra stjórnmálaflokka og fulltrúum Félags kvenna í atvinnulífinu, Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Creditinfo. Það var svolítill lúðrablástur þegar þessi samningur var undirritaður og það var mjög flott, þetta var vel gert. Ég hef litið, virðulegur forseti, á fréttaumfjöllun um undirritun samningsins og fólk stillti sér upp á fína fréttamynd sem birtist í miðlum. Þar eru Þór Sigfússon, þáverandi formaður Samtaka atvinnulífsins, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hæstv. ráðherra Árni Páll Árnason, fulltrúi Samfylkingarinnar, Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fyrir hönd Framsóknarflokksins, Rakel Finnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, og Margrét Kristmannsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnurekstri. Þetta sýnir vilja bæði stjórnmálaflokkanna og atvinnulífsins til að ná þessu markmiði um 40% kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja árið 2013, sem er nákvæmlega það sem við erum nú að fara að setja í lög, 40% hlutfall karla og kvenna í fyrirtækjunum árið 2013, þannig að ég átta mig ekki á því af hverju þessi andstaða sprettur upp fyrst menn eru sammála um þetta. Talað er um aðferðafræði, en nú erum við að tala um þá aðferðafræði sem virkar best að okkar mati, það er að setja þetta í lög, þá er mjög skýr pólitískur vilji í landinu um að það eigi að ná þessu hlutfalli. Að vísu veit ég ekki alveg hvað Hreyfingin ætlar sér en kannski kemur fulltrúi hennar upp á eftir, en þeir flokkar sem hafa tjáð sig hér hafa alla vega þann skýra vilja að koma þessu þannig fyrir að við förum norsku leiðina svokölluðu, setjum hér lagaákvæði til að ná 40% hlutfallinu.

Það kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram að við erum að missa hlutfall kvenna í fyrirtækinu niður eftir bankahrunið. Það hefur farið úr 15% niður í 11% eftir hrun. Þetta er auðvitað gífurlega mikið áhyggjuefni og þess vegna er enn brýnna en fyrr að koma þessu ákvæði í lög, gefa fyrirtækjunum þessi þrjú ár til aðlögunar og síðan verður þetta kom ið í lag að þeim tíma liðnum. Fyrir þessu eru bæði réttlætissjónarmið og hagræn sjónarmið. Margoft hefur verið sýnt fram á það að fyrirtæki þar sem kynjahlutfall í stjórnum er blandað ganga betur en þau þar sem er einungis annað kynið er við stjórn. Síðan eru það líka rök að konur eru helmingur þjóðarinnar og það hlýtur að eiga að endurspeglast í efsta lagi fyrirtækjanna eins og annars staðar. Það er búið að bíða nógu lengi, virðulegi forseti, eftir því að þetta kynjahlutfall lagist og ég er mjög ánægð með að við skulum taka þetta róttæka skref.

Af því að fólk lítur svo misjöfnum augum á jafnrétti þá vil ég nefna að á sínum tíma kom hingað sendinefnd frá öðru ríki. Ég ætla ekki að nefna hvaða ríki þetta var en það var við botn Miðjarðarhafs eða frá Miðausturlöndum og í því ríki voru á þeim tíma einungis karlar á þingi og konur höfðu ekki rétt til að bjóða sig fram. Fulltrúi í íslensku utanríkismálanefndinni, reyndar kona sem sat í utanríkismálanefnd á þeim tíma, spurði: Hvernig má þetta vera? Af hverju eru engar konur á þingi ykkar? Svarið kom ótrúlega snöggt og var ótrúlega bratt: Þetta er lýðræði. Það kom tillaga inn í þingið hjá okkur um að konur ættu að hafa rétt til að bjóða sig fram til þingsins en sú tillaga var felld í atkvæðagreiðslu í þinginu. Hún fékk lýðræðislega umfjöllun og var felld þannig að meiri hlutinn vildi það ekki. Þetta var svarið. Þetta sýnir hvað menn geta litið misjöfnum augum á hvað er jafnrétti og hvað er lýðræði, virðulegi forseti. Ég styð þetta mál eindregið og er mjög ánægð með að finna þann fríska andblæ sem leikur um sali Alþingis í sambandi við þetta mál og er stolt af því að eiga hlut að máli þegar ég segi nei við atkvæðagreiðsluna. (Gripið fram í: Nei?) Segi já.