138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra að fríski andblærinn hefur breytt skoðun hv. þingmanns en ég vil nota tækifærið og leiðrétta fyrir hennar hönd, að sjálfsögðu ætlaði hún að segja já.

Þingmaðurinn sagði að þetta frumvarp væri þannig að það skæri úr um það hverjir væru tilbúnir til að taka skref í átt til jafnréttis og hverjir ekki. Þar vil ég byrja á því að mótmæla hv. þingmanni vegna þess að ég ætla að segja það einu sinni enn að þetta snýst ekki um það hvort við séum með eða á móti jafnrétti. Þetta snýst um þær aðferðir sem við viljum nota til að ná því fram.

Þingmaðurinn sagði enn fremur að sú sem hér stendur vilji nota tæki sem virka hægar til að ná þessu markmiði. Á sama tíma og hún fagnar því sérstaklega að gildistaka þessa lagaákvæðis er árið 2013, þá tekur samningurinn sem ég vildi láta reyna á að næði fram að ganga, og hv. þingmanni finnst ég vera of þolinmóð, einmitt til ársins 2013. Það er nákvæmlega þetta sem er um að tefla, mismunandi aðferðir, sama tímabilið en tækin eru mismunandi. Þess vegna segist ég vilja gera þetta á jákvæðan hátt og ég hlýt að ítreka það hér.

Það er rétt hjá þingmanninum að frumvarpið kom ekki svona frá ráðuneytinu og ég taldi að tillaga ráðherrans og ráðuneytisins væri mun betri vegna þess að þar var setningin „að stefnt skuli að“ og það fannst mér ná ákveðinni málamiðlun í málinu. Ég vil lesa upp úr umsögn Viðskiptaráðs Íslands, með leyfi forseta:

„Það er ekki heppilegt að löggjafinn grípi af fljótfærni fram fyrir hendurnar (Forseti hringir.) á íslensku atvinnulífi með þessum hætti. Ofangreind samtök eru sammála um að það sé bæði nauðsynlegt og skynsamlegt að fjölga konum í forustusveit atvinnulífsins (Forseti hringir.) — sú leið sem breytingartillagan felur í sér er hins vegar ekki heppileg.“