138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir um margt ágæta ræðu þar sem ég var sammála sumu en öðru ekki. Ég er í fyrsta lagi mjög ósammála því sem hann ítrekaði í ræðu sinni, þ.e. spurningunni af hverju í ósköpunum menn geti ekki unnt Alþingi þess að staðfesta þann samning sem gerður hefur verið. Ég er ekki sammála því að Alþingi eigi að grípa fram fyrir hendurnar á þeim sem skrifuðu undir samninginn og það er þess vegna sem ég er ósammála aðferðafræðinni. Það hefur komið fram hér í umræðunni og það hefur komið fram í máli mínu.

Annað sem ég var sammála þingmanninum um voru lokaorð hans hér í ræðustól þegar hann sagði að við ættum að ganga á undan með góðu fordæmi . Þá spyr ég hv. þingmann: Af hverju byrjum við ekki áður en við förum að setja lög, sem við erum ekkert endilega viss um að muni ná þessu markmiði, miðað við það að við höfum verið með lög um opinberan rekstur, um opinber fyrirtæki, um opinberar stjórnir, nefndir, jafnréttislög í gildi um margra ára skeið? Ég taldi hér upp — ég veit ekki hvort hv. þingmaður var í salnum þegar ég flutti ræðu mína — ég nefndi slitastjórnir, ég nefndi skiptastjórnir, ég nefndi bankaráð í eigu ríkisins og ég nefndi nýjasta dæmið, Icesave-samninganefndinna, 6:0, bara karlar þar. Þetta er allt á valdi ríkisstjórnarinnar og þetta hefur ríkisstjórnin sett í lög, að gæta eigi að sem jöfnustum hlutföllum, en það er ekki að virka.

Spurning mín er þessi: Af hverju tökum við ekki fyrst til heima hjá okkur, klárum það, verum viss að þau tæki sem þingmaðurinn er svo ánægður með virki áður en við förum að grípa inn í ferli sem komið var af stað af fúsum og frjálsum vilja hjá þessum samtökum með fulltingi stjórnmálaflokkanna og við stjórnmálamenn höfum lýst okkur reiðubúin til að styðja? Það er það sem þessi samtök biðja um, að fá að gera þetta á sínum forsendum og með nákvæmlega sama tímaramma. (Forseti hringir.) Mér finnst með ólíkindum verið sé að fetta fingur út í það að þessu fólki (Forseti hringir.) sé leyft að klára samninginn áður sjálft.