138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:38]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst helst til langt seilst af hv. þingmanni að ætla að láta Framsóknarflokkinn svara fyrir gjörðir ríkisstjórnarinnar þegar kemur að (Gripið fram í.) skipan í nefndir og ráð ríkisfyrirtækja en væri Framsóknarflokkurinn í þeirri aðstöðu væru þessi kynjahlutföll svo sannarlega mun jafnari vegna þess að við höfum sýnt það í orði, m.a. með lagasetningu innan flokksins, að okkur er alvara þegar kemur að jafnréttismálum, okkur er það fyllsta alvara að jafna réttindi kynjanna á Íslandi í dag.

Frú forseti. Hv. þingmaður lýsir enn og aftur yfir andstöðu sinni við það að við afgreiðum þetta með þessum hætti og segir að sá samningur sem liggur fyrir eigi að fá að rúlla sína leið og við skulum síðan sjá hvað gerist árið 2013. Ef ekkert hefur áunnist á þeirri leið að rétta hlut kvenna samkvæmt þessu samkomulagi og við horfum upp á sömu hlutföllin árið 2013 og eru í dag, hvað ætlar þingmaðurinn að gera þá? (REÁ: Ég svaraði því í ræðu minni.) Á að gera nýtt samkomulag eða er lagasetningin í lagi þá? Af hverju verður hún í lagi þá frekar en í dag?

Ég segi það einfaldlega, í ljósi þess að íslenskar konur eru fullfærar um að stýra stórum fyrirtækjum líkt og karlmenn í dag, að mér finnst það óþolandi að horfa upp á það, hvort sem það er ríkisstjórn Íslands sem veldur því eða aðilar vinnumarkaðarins, að það séu eingöngu karlar í stjórnum þessara stærstu fyrirtækja. Mér finnst óþolandi, og það réttlætir það ekki þó að ríkisstjórnin standi ekki sína plikt — ég get ómögulega svarað fyrir hana — að þurfa að horfa upp á það árið 2013 ef þessi hlutföll verða þá enn í sama ólaginu og þau eru í dag. Ég vil geta sagt þá að ég hafi á Alþingi Íslendinga sem þingmaður sett lög sem kváðu á um það að jafna hlut karla og kvenna (Forseti hringir.) í stærstu fyrirtækjum landsins.