138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:42]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur við að maður finni til með hv. þingmanni í tilraunum hennar til að eigna Sjálfstæðisflokknum fæðingarorlofið. (PHB: Hann á það.) Hann á það, kallar svo Pétur H. Blöndal. Mér heyrist á þessari orðræðu að það hafi ekkert veitt af því árið 2007 að þessi flokkur fengi smáhvíld frá mjög löngu ríkisstjórnarsamstarfi samfellt, því að hér talaði hv. þingmaður eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft öll völdin og ef sá flokkur hefði ekki verið með þessu máli, sem Framsóknarflokkurinn hefur dregið og dró um langan tíma, hefði bara ekki orðið neitt af þessu. Þetta er greinilega aðalflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, sérstaklega þegar kemur að jafnréttismálum. Ég held að þeir sem hlusta á þessa útsendingu (Gripið fram í.) sjái nú hver stefna Sjálfstæðisflokksins er þegar kemur að jafnréttismálum. Hér er Sjálfstæðisflokkurinn, einn flokka, á móti því að binda í lög ákvæði sem er nákvæmlega samhljóða þeirri samþykkt sem gerð hefur verið á milli aðila vinnumarkaðarins. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að bítast hér um á hæl og hnakka gegn því að við staðfestum það að 1. september árið 2013 verði kynjahlutföllin orðin jafnari með lögum (REÁ: Nei, ...) í stærstu fyrirtækjum landsins.

Ég segi það mjög stoltur að það var Framsóknarflokkurinn sem þurfti að taka harða rimmu við öfl innan Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma, m.a. Samband ungra sjálfstæðismanna sem töluðu svo heitir gegn fæðingarorlofslögum sem þáverandi félagsmálaráðherra Páll Pétursson, sem var ráðherra Framsóknarflokksins, lagði fram. (REÁ: Var hann aleinn með lögin?) Var hann aleinn með málið? segir hv. þingmaður. Ja, það tók sinn tíma af hálfu okkar framsóknarmanna að rökræða m.a. við Samband ungra sjálfstæðismanna fyrir því að fæðingarorlofslögin ættu að vera með það jafnréttisákvæði sem þau eru með í dag og er fremsta löggjöf (Forseti hringir.) á sínu sviði í heiminum og við framsóknarmenn erum mjög stoltir af.