138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:44]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Þegar ég hlustaði á þá umræðu sem hér fór fram, og þau ræðuhöld, fannst mér satt best að segja, frú forseti, heldur betur horft til fortíðar. Menn karpa um hver hefði gert hvað og hvenær. (BJJ: Það er nú ástæða til.) (Gripið fram í.) Þegar við erum að ræða hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög þar sem ræða á eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn var fæðingarorlofsfrumvarpið helst á dagskrá. Það er kannski dálítið langt seilst í umræðunni um þetta frumvarp. (BJJ: Jafnréttismál.) Frumvarpið sem hér liggur fyrir og er til umræðu er ekki frumvarp um jafnréttismál. Þetta er frumvarp um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Þetta er frumvarp sem breytingartillögu um kynjakvóta í stjórnum einkahlutafélaga var lætt inn í. (Gripið fram í.) Það stóð ekki í frumvarpinu í upphafi (Gripið fram í: Var henni …?) þannig að henni er lætt inn í frumvarpið, þetta er breytingartillaga sem kemur inn í frumvarpið. (Gripið fram í.) Við erum hér að ræða þá breytingartillögu og um það snýst þessi umræða. Hún snýst líka um það hvort fólk sé með eða á móti jafnréttismálum eða jafnrétti almennt.

Frú forseti. Ég frábið mér að vera vænd um að vera ekki jafnréttissinni og hafa ekki áhuga á jafnréttismálum þó að ég sé ekki tilbúin til að beita valdboði með löggjöf á einkahlutafélög um það á hvern hátt þau skipa í stjórnir fyrirtækja sinna. Það á í mínum huga ekkert skylt við það hvort maður er jafnréttissinni eður ei. Það er sama hver löggjöfin er, ef hún er íþyngjandi eins og í þessu tilviki, ef hún jaðrar við að fara á skjön við eignarrétt er það ekki samboðið Alþingi að setja slík lög. Þess vegna, frú forseti, er ég andsnúin því að binda kynjakvóta á einkahlutafélög og eigendur þeirra félaga í lög á meðan löggjafinn sjálfur getur ekki sýnt framkvæmdarvaldinu það aðhald að framkvæmdarvaldið geri þá í það minnsta það sem löggjafinn leggur hér til að einkafyrirtækin eigi að gera.

Hvers vegna hafa þeir þingmenn sem styðja þennan kynjakvóta ekki komið fram og umræður farið fram um það að framkvæmdarvaldið, sem situr í umboði löggjafarvaldsins, fer ekki að því sem hér er boðað? Enginn hefur gert neinar sérstakar athugasemdir við það. Stjórnarþingmenn almennt eru ekki að setja út á hvernig framkvæmdarvaldið og einstaka ráðherrar skipa í stjórnir og ráð. En löggjafinn ætlar síðan að hafa vit fyrir einkafyrirtækjum og eigendum þeirra úti í bæ og hlutast til um hvernig þeir fara með fyrirtæki sín og hverja þeir velja í þau. En við á Alþingi getum ekki veitt framkvæmdarvaldinu það aðhald að það í það minnsta fari eftir og sinni þeim lögum sem löggjafinn hefur sett í þessum málum almennt.

Hvers konar tvískinnungur er þetta á hinu háa Alþingi þegar löggjafinn ætlar fram með þessum hætti? Af hverju geta þingmenn ekki verið sjálfum sér samkvæmir hvað þetta varðar? (BJJ: Við erum það.) Við erum það, hrópar hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Ég hef ekki séð neitt frumvarp, neina umræðu af hálfu hv. þingmanns almennt þegar ráðherrar hafa setið í stólum eða þegar þeir hafa skipað stjórnir og ráð, að hv. þingmaður hafi farið í ræðustól og gagnrýnt (BJJ: Var að því.) — það situr enginn ráðherra í salnum, hv. þingmaður — að þegar þær stjórnir hafi verið skipaðar hafi þingmenn gagnrýnt þau vinnubrögð framkvæmdarvaldsins sem situr í umboði löggjafans. (SF: Það er margoft búið að gera það.) Það er margoft búið að gera það, segir hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Það virðist ekki hafa borið neinn árangur þó að það sé margoft búið að benda á það. Samt ætlar löggjafinn að ganga skrefinu lengra gagnvart einkafyrirtækjum í landinu og setja á þau lög um það með hvaða hætti þeir velja fulltrúa í stjórnir sínar.

Ég vil hins vegar leyfa mér að binda vonir við að við efnahagshrunið og þær samfélagsbreytingar sem við erum að ganga í gegnum nú verði viðhorfsbreyting í samfélaginu, ekki bara gagnvart konum og körlum og setu kvenna og karla í stjórnum og ráðum, heldur ákveðin viðhorfsbreyting almennt sem leiði til þess að það verði sjálfsagt að ólík sjónarmið og bæði kyn komi að stjórnum og ráðum, en að ekki þurfi að binda það í lög.

Mér finnst, frú forseti, slíkt inngrip af hálfu löggjafarvaldsins sem hér er lagt til dapurlegt. Mér finnst dapurlegt að við leggjum hér til að þetta verði sett í kvóta, kynjakvóta, sem aðrir en við sjálf eigum að fara eftir. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að hér er meiri hluti á þingi. Hér hefur ríkisstjórnin stundum meiri hluta í sumum málum og hún virðist hafa oftar en ekki meiri hluta í minni háttar málum þó að hún hafi ekki meiri hluta í stórum málum. Eftir því sem umræðu hefur undið hér fram heyrist mér á öllu að hv. þingmenn Framsóknarflokksins muni greiða þessari breytingartillögu atkvæði sitt. (BJJ: Er þetta minni háttar mál?) Það er vel. Já, frú forseti, að mínu mati er það minni háttar mál að hafa meiri hluta fyrir þessu frumvarpi miðað við mörg önnur stórmál sem við höfum rætt í þinginu frá hruni bankanna. Þetta er í mínum huga, frú forseti og hv. þingmaður, minni háttar mál. Það er einfaldlega þannig.

Ég lýsi mig andsnúna því að löggjafinn setji lög sem bindi hendur þeirra sem eiga fyrirtækin með þeim hætti sem hér er gert. Það á ekkert skylt við það hvort ég er jafnréttissinni eða ekki jafnréttissinni. Ég er á móti íþyngjandi lögum, mér er sama í hvaða veru þau eru. (Gripið fram í.)