138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:53]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri athugasemd við það sem hv. þingmaður sagði um að það væri verið að læða einhverju inn hérna. Þetta var svolítið lymskulega orðað. Það er aldeilis ekki verið að læða neinu hérna inn. Hins vegar kom þetta ákvæði ekki frá hæstv. ráðherra þegar málið kom hingað fyrst, nei. Það var minnst á þetta hér við 1. umr., þá tók hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir það sérstaklega upp og síðan flytur hluti nefndarinnar þessa tillögu í þingið, að vísu ekki fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson voru ekki með í þeim tillöguflutningi og svo erum við að ræða þetta hér núna. Hér er því ekki verið að laumupúkast með neitt, hér er þetta rætt fyrir opnum tjöldum.

Hv. þingmaður segir að þetta sé svo íþyngjandi. Það er a.m.k. ljóst, virðulegur forseti, að þetta er ekki íþyngjandi fyrir jafnréttismálin í landinu. (Forseti hringir.) Þetta er til bóta fyrir jafnréttismálin í landinu.