138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem við ræðum hér, kynjakvóti í stjórnum og ráðum, var ekki í frumvarpinu þegar það kom fram. Menn hafa vitnað til Noregs um það á hvern hátt Noregur hafi farið að í þessum málum. Áður en Norðmenn bundu í lög kynjakvótann fór fram rík og mikil umræða, ekki bara á þingi heldur víðs vegar. Sú víðtæka umræða hefur hvorki átt sér stað hér né úti í samfélaginu. Það var ráðstefna í háskólanum ekki alls fyrir löngu þar sem í það minnsta við hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vorum. Ég sat þar í pallborði og lýsti skoðunum mínum á kynjakvóta, það er það eina sem ég hef heyrt af umræðu um kynjakvóta eftir að þetta frumvarp kom fram. Kynjakvóti er ræddur í afmörkuðum hópum vítt og breitt en er ekki almennt í umræðunni.

Það má vel vera, frú forseti, (Forseti hringir.) að ég komi betur að því í síðara andsvari mínu.