138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:55]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta mál er ekkert svakalega flókið. Aðilar á vinnumarkaði hafa kallað eftir því að þetta kynjahlutfall yrði lagað og hafa gert sérstakan samning þar um. (REÁ: Ekki með þessum hætti.) Það er margoft búið að ræða það hér. (REÁ: Ekki binda þetta í lög.) Hér virðist stefna í talsvert mikinn meiri hluta fyrir því að binda þetta í lög, taka af skarið, tryggja það að konur sérstaklega — af því að það hallar á þær, það vill þannig til að það hallar á konurnar — nái a.m.k. 40% hlutfalli í stjórnum.

Ég er eiginlega sannfærð um að þeir sem munu greiða hér atkvæði með þessu, sá meiri hluti sem ég held að stefni í, séu alveg ágætir í að endurspegla þokkalega þetta samfélag. Ég geri athugasemd við að sagt sé að þessi umræða sé tekin í einhverjum þröngum hópum (Forseti hringir.) og gefið í skyn að meiri hluti Alþingis sé á villigötum. (Forseti hringir.) Ég bara andmæli því.