138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[15:57]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var ekkert rætt um að Alþingi væri á villigötum. (SF: Það lá í orðanna hljóðan.) Menn geta þá bara túlkað orð mín eins og þeim hentar, en þeir ákveða ekki hvað þingmenn eiga við þegar þeir tala og segja það sem þeir segja. (SF: Í þröngum hópum.) Ég talaði um þrönga hópa úti í samfélaginu. Það er ekki Alþingi úti í samfélaginu, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Alþingi ræðir málin sín á Alþingi, á löggjafarsamkomunni, og hefur löggjafarvaldið. Ég er enn þá þeirrar skoðunar og verð þeirrar skoðunar að ekki eigi að beita valdboði með þessum hætti.

Atvinnurekendur hafa sjálfir lagt fram samning og ætla sér að vinna að þessu verkefni. Þeir hafa farið fram á að ekki verði sett lög. Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að veita þeim þetta tækifæri?