138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:01]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að í kjölfar efnahagshrunsins eigum við að breyta hér ýmsu og taka upp önnur og skynsamlegri gildi en réðu för hjá áhættusæknum bankamönnum. Ég get fallist á það, frú forseti, en ég get ekki sæst á að það sé gert á þann hátt sem hér er verið að gera.

Þegar hv. þingmaður segir að orð skuli standa, og beinir þá orðum sínum til Samtaka atvinnulífsins sem hafa skrifað undir þann samning að þau ætli að reyna að ná markmiðum sínum og þess vegna eigi að tryggja það með löggjöf hér, væri fróðlegt að heyra frá hv. þingmanni hvað honum almennt finnst um það þá í þeirri löggjöf sem þegar ríkir í landinu um jafnréttismál. Hvað (Forseti hringir.) má þá segja um að orð skuli standa?