138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er dálítið undarleg umræða og það gætir lítillar þolinmæði hjá stuðningsmönnum þessara breytingartillagna og frumvarpsins í garð annarra sem hafa aðrar skoðanir. Það er mikið um alhæfingar, hér kom m.a. fram áðan að allur Sjálfstæðisflokkurinn væri á móti jafnrétti. (BJJ: Það hefur enginn sagt.)

Það hefur verið dálítið rætt um fæðingarorlofið. Það vill svo til að þegar ég kom inn á þing 1995 flutti ég jómfrúrræðu, þá fyrstu af nokkrum ræðum sem ég hef haldið síðan, og hún fjallaði einmitt um fæðingarorlofið og jafnrétti kynjanna. Hún fjallaði um það hvernig karlar í þeirri stöðu voru ódýrari en konur vegna þess að þeir fóru ekki í fæðingarorlof. Þess vegna lagði ég til og var mjög hlynntur því að tekin yrði upp stefna sem gerði karla jafndýra og konur. Það varð kveikjan að fæðingarorlofinu sem nú er orðið víðfrægt.

Það var nefnilega þannig að aðalkveikjan að fæðingarorlofinu var jafnrétti, ekki tengsl feðra við börn og barna við feður eða foreldra sína o.s.frv, sem er reyndar mjög jákvæð afurð úr þeirri lagasetningu og hefur sennilega miklu meiri áhrif en menn ímynda sér. Fæðingarorlofið varð því svona. Síðan geta menn rifist um það endalaust hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi búið fæðingarorlofið til eða Framsóknarflokkurinn eða einhverjir aðrir. Það vill svo til, frú forseti, að þegar það hentar virðist Sjálfstæðisflokkurinn hafa verið einn í stjórn í 18 ár og eiga sök á öllu, en þegar það hentar ekki var hann bara ekkert í stjórn og réði engu þegar eitthvað gott er í umræðunni. Þá var Framsóknarflokkurinn eða Samfylkingin eða einhver annar í stjórn. Þetta er dálítill tvískinnungur, frú forseti, og ég kann ekki við hann. Annaðhvort var Sjálfstæðisflokkurinn einn í ríkisstjórn í 18 ár og réði öllu og á þá bæði kosti og galla eða hann var í samstarfi við aðra flokka. Og þannig var það náttúrlega. Hann var í stjórn með öðrum flokkum.

Ætla ég þá ekki að tala mikið meira um fæðingarorlofið.

Kvennafrídagurinn mikli 1975, sem ég man gjörla eftir, er að verða 35 ára. Ég batt miklar vonir við þennan merkilega dag og átti von á því að jafnréttið mundi lagast, en afskaplega lítið og furðulega lítið hefur miðað á öllum þessum 35 árum. Í meira en aldarþriðjung hefur lítið miðað og er þó margt búið að gera.

Ég batt líka vonir við að fæðingarorlofið — ég nefni það óvart aftur — mundi laga jafnréttið en það hefur heldur ekki gerst. Reyndar hafa menn skert hámarkið þannig að jafnréttið gildir ekki fyrir hæstu laun, það virðist vera stefna ríkisstjórnarinnar og annarra að jafnréttið eigi að gilda fyrir alla nema rétt fyrir ofan meðallaun eins og það er núna. Það virkar örugglega þannig.

Árangur hefur ekki náðst í jafnrétti og hvers vegna skyldi ég vera hlynntur jafnrétti, frú forseti, hvers vegna er fólk yfirleitt hlynnt jafnrétti? Það er bæði réttlætið en líka efnahagsleg sjónarmið á bak við það. Réttlætissjónarmiðið er það að ég vil helst að dætur mínar njóti jafnréttis á við syni mína og annað fólk í þjóðfélaginu og ég vil líka að systur mínar og frænkur séu meðhöndlaðar eins og annað fólk. Ég vil sem sagt að það sé jafnrétti á milli fólks og það er kannski þar sem menn eru alltaf að gera mistök. Menn eru alltaf að tala um jafnrétti milli kynjanna en það er ekki jafnrétti milli fólks. Á það hef ég margoft bent.

Þetta er í fyrsta lagi réttlætið, en svo er það arðsemin og hagkvæmnin. Þetta er efnahagsmál. Ef þjóðfélagið nýtir ekki hvern þegn vegna hæfileika hans heldur út af einhverju öðru sjónarmiði tapar þjóðfélagið. Þegar þjóðfélagið ræður lélegri og lakari karl og borgar honum jafnvel hærri laun en konu notar þjóðfélagið ekki besta vinnukraftinn og allt þjóðfélagið tapar. Það er alltaf tap fyrir þjóðfélagið þegar jafnrétti gildir ekki milli þegnanna. Nú passa ég mig á því að segja ekki jafnrétti kynjanna því að það þarf líka að vera jafnrétti milli karla og karla og kvenna og kvenna. Ég fullyrði að mörg konan sem er í réttum flokki og ættstór hefur miklu meiri tækifæri í lífinu en karlmaður eða einhver önnur kona en það kemur hvergi fram.

Þetta er um mikilvægi jafnréttis og staðan er afskaplega dapurleg. Sjúklingurinn er veikur, hitamælirinn sýnir háan hita og nú ætla menn að breyta hitamælinum og halda að þá sé allt komið í lag. Þeir grafast ekki fyrir um það hvað sé eiginlega að sjúklingnum, af hverju þetta misrétti sé, hvernig standi á því. Það er ráðist á hitamælinn og honum skal breytt. Nú skal þvinga fram jafnrétti með lögum, það skal bara gert og þá er það bara búið og gert og allt í lagi. En það er ekki í lagi vegna þess að menn þurfa að velta fyrir sér af hverju þetta misrétti sé. Af hverju eru færri konur í stjórn? Það skyldu þó ekki vera fordómar einhvers staðar, fordómar karla gagnvart konum, fordómar kvenna gagnvart konum? Margir eigendur fyrirtækja eru konur og það eru eigendurnir sem kjósa stjórn en ekki stjórnin sjálf. Eigendur fyrirtækja kjósa stjórnir en ekki stjórnirnar sjálfar og það eru stjórnirnar sem ráða framkvæmdastjóra. Fordómar eigendanna — sem oft eru konur — eru gagnvart konum. Svo eru kannski fordómar einstaklingsins gagnvart sjálfum sér það mikilvægasta. Konum er sagt og þær trúa því að þær séu ekki eins hæfar og aðrir og þar myndast fordómar, inni í manneskjunni sjálfri. Það er þetta sem við þurfum að laga hjá öllum, líka mörgum karlmönnum en aðallega konum, ég verð mikið var við þetta hjá konum.

Ekkert verður gert fyrr en við erum búin að laga þetta, annars breytist þetta ekki. Menn eru að gera alls konar hluti, menn eru t.d. með fléttulista í prófkjörum. Hugsið ykkur óréttlætið, hugsið ykkur hvað þetta brýtur lýðræðið. Það er haldið prófkjör og einhver listi kemur fram sem kjósendur vildu. Meiri hlutinn í efstu sætunum er kannski konur, eins og kom fyrir um daginn hjá Vinstri grænum. Þá breyttu þeir reyndar ekki fléttulistanum af því að það var í „réttu“ áttina. Ef það kæmu fram eintómir karlmenn — þetta vildu kjósendur — skyldi því breytt. Það eru mjög slæm dæmi um að lýðræðið hafi beðið hnekki vegna þess að menn beittu fléttulistum. Maður sem fékk miklu fleiri atkvæði í prófkjöri er settur neðar og nær ekki fram vegna þess að hann er af ákveðnu kyni, í þessu tilfelli oftast karlkyni.

Hér er verið að tala um að brjóta eignarréttinn. Eignarrétturinn felst í því að eigendur fyrirtækja kjósa í stjórn. Nú mega þeir það ekki lengur, nú mega þeir ekki kjósa þá stjórn sem þeir vilja og treysta. Til að taka hinar öfgarnar, sem eru kannski frekar sjaldgæfar, getur verið að einhver eigandi einkafyrirtækis, lítils fyrirtækis, sem er með þrjá menn í stjórn eigi þrjár dætur og eigi bara systur. Maður þessa eiganda — sem er kona — er dáinn, það er sem sagt enginn karlmaður í fjölskyldunni og eigandinn vill gjarnan halda þessu inni í fjölskyldunni, vill ekki taka inn neinn utanaðkomandi en hann verður núna að ráða einn utan að, hann bara verður að gera það. Svo getur vel verið að eigandi einhvers annars fyrirtækis þekki þrjá öndvegispilta sem hann treystir 100%. Hann má ekki ráða þá þrjá í stjórn, hann verður að ráða einhvern annan sem hann kannski þekkir ekki neitt og treystir ekki. Þetta er brot á eignarrétti og ýmsu fleiru.

Nú getur verið að menn segi að það sé allt í lagi að brjóta eignarréttinn af því að hinir hagsmunirnir séu meiri. Það sjónarmið er alveg réttmætt. Menn geta sem sagt viljað brjóta eignarréttinn og brjóta lýðræðið til að auka jafnréttið. Allt í lagi, þá er það bara ákveðið sjónarmið og það ætti að standa í frumvarpinu: Við ætlum að brjóta eignarréttinn, stjórnarskrána, til að ná fram þessu jafnrétti. Það getur vel verið að menn ætli að gera það og þá gera menn það en þeir verða að vita hvað þeir eru að gera. Það sem er kannski verst við þetta er að einhver kona kemst í stjórn og eftir að þessi lög hafa tekið gildi munu allir geta sagt við þessa konu: Þú fékkst stöðuna af því að þú ert kona, ekki vegna verðleika eða hæfileika, nei, menn urðu að velja þig í stjórn, menn höfðu ekkert val. Það munu allir geta sagt þetta við konuna, og hún jafnvel við sjálfa sig: Ég er ekki hæfust. Þetta eru hættulegar afleiðingar af þessu frumvarpi, hættulegar afleiðingar af lagasetningu.

Það er dálítið undarlegt, frú forseti, að rétt eftir hrun, þegar ríkisvaldið eignaðist nánast allt atvinnulífið, öll stærri fyrirtæki, flutningafyrirtækin, tryggingafyrirtækin, bankana o.s.frv., skuli jafnréttinu hraka, þegar menn sem þykjast vera jafnréttissinnar, bæði í gömlu ríkisstjórninni sem varð til í febrúar 2009 og alveg sérstaklega í nýju ríkisstjórninni, þar sem allir hjala um jafnrétti alla daga. Það er svoleiðis í nösunum á þeim, frú forseti, að það er ótrúlegt. Samt sem áður, þegar þeir ráða öllu, þetta eru allt orðin ríkisfyrirtæki, hrakar jafnréttinu, þá eru ráðnir fleiri karlmenn. Hvernig skyldi standa á þessu? Þetta eru eigendurnir. Ríkið á þetta, Alþingi vill jafnrétti, ríkisstjórnin þykist vilja jafnrétti og samt hrakar jafnréttinu hjá eigandanum, þeim sem á nánast allt atvinnulífið. Hvernig stendur á þessu? Hefur einhver spurt, hefur ríkisstjórnin spurt sjálfa sig, hafa hæstv. ráðherrar spurt sjálfa sig hvernig stendur á þessu? Ræð ég engu? Af hverju setja menn ekki bara lög um að öll fyrirtæki í eigu ríkisins skuli virða jafnrétti? Það reyndar stendur um opinber hlutafélög að þar skuli vera jafnrétti og ég hef spurt hérna mörgum sinnum hvort öll þessi fyrirtæki séu ekki opinber fyrirtæki, ohf. Eru þau það ekki? Ríkið á þetta eða átti það áður en menn einkavæddu tvo banka í laumi. Það fór lítið fyrir því. Og þeir ráða a.m.k. einum banka núna, Landsbankanum, ríkið á hann. Og þá tel ég að öll dótturfyrirtæki sem Landsbankinn á séu alfarið í eigu ríkisins, þar með opinber hlutafélög, og þar ætti að vera jafnrétti kynjanna í stjórnum og allir aðalfundir opnir. En svo er ekki.

Það er eitt að setja lög, annað að sjá til þess að þeim sé framfylgt. Ég tel að lögunum um opinber hlutafélög hafi bara ekkert verið framfylgt, þau hafi verið sett fyrst og fremst til að ná utan um Ríkisútvarpið ohf. og svo hafi menn gleymt öllu hinu.

Menn eru mjög uppteknir af því að breyta hitamælinum og ég hef margoft sagt það. Það eru í gildi lög um jafnréttisáætlanir, jafnréttisráð og jafnréttis-þetta og jafnréttis-hitt, jafnréttisiðnað má segja. Þar eru menn uppteknir af því að telja hausa, búa til pappíra, dæla út jafnréttisáætlunum og ég veit ekki hvað og hvað, allt til þess að breyta hitamælinum en ekki til þess að breyta sjúkdómnum sem er undirliggjandi sem eru að mínu mati fordómar manna út og suður.

Ég ætla ekki að tala mikið meira enda tíminn búinn. Mig langar til að ræða þessa breytingartillögu frá Lilju Mósesdóttur, sem er alveg réttmæt. Það uppgötvaðist allt í einu að opinber hlutafélög duttu úr því að vera jafnréttissinnuð yfir í það að vera jafnréttissinnuð eftir tvö ár. Ég vara menn við þessari breytingartillögu eins og hún er orðuð. Ég reyndi að skilja hana, ég reyndi að setja hana inn og þá stendur í frumvarpinu með breytingum svo ég lesi þetta, frú forseti:

„Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu ákvæði 2.–4. málsl. 2. gr. um önnur hlutafélög en opinber hlutafélög.“ Punktur. Ég veit ekki alveg hvernig á að skilja þetta. Og: „ 3.–5. málsl. 8. gr. öðlast gildi 1. september 2013.“

Það á sem sagt að taka opinber hlutafélög út. En þarna stendur önnur hlutafélög án takmörkunar. Það á sem sagt þá við um öll önnur hlutafélög, líka þau sem eru með færri en 40–50 starfsmenn. Ég vara við þessu og bið menn um að skoða þetta mjög nákvæmlega því að nú á að fara að afgreiða frumvarpið og þá er það orðið lög. Það yrði mjög slæmt ef menn samþykktu hérna eitthvað sem var ekki meiningin að samþykkja. Ég skora á bæði nefndasvið og flutningsmann tillögunnar, Lilju Mósesdóttur, að gæta að því enda er stór hætta á að þetta verði samþykkt. Það verður eiginlega að samþykkja þetta því að annars væru menn að bakka með opinberu hlutafélögin. Ég óttast að þarna komi allt í einu almennt önnur hlutafélög inn, öllsömul, líka þau sem eru með fimm starfsmenn eða 10 starfsmenn þannig að ég bara bendi á þetta.