138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög athyglisvert og athyglisverðar upplýsingar og skemmtileg sjónarmið. Málið er að spurningin er þessi: Af hverju vilja fyrirtækin ekki velja jafnt í stjórnir, jafnt af hvoru kyni ef þau græða á því? Það skyldi nú ekki vera að þeir frægu fordómar sem ég gat um áðan séu til staðar og það þurfi að útrýma þeim frekar en að setja lög? Það er það sem ég var að benda á áðan, að það er ákveðinn sjúkdómur undirliggjandi og það þarf að breyta honum, ekki hitamælinum. Hitamælirinn lagar enga sjúkdóma. Það getur verið að sjúklingurinn sýni minni hita og allir segi að hann sé bara hress, en hann er ekkert hress. Það er einmitt það sem þessi lagasetning dylur, hún mun fela það í áratugi að það er í rauninni undirliggjandi ójafnrétti og það mun ekki koma í ljós af því það er lagaskylda. Ég óttast þetta og ég óttast það líka, því miður, að konur muni heyra það, bæði frá sjálfum sér og öðrum, að þær séu í stjórn bara af því lögin segja það.