138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:42]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að ítreka spurninguna hvað varðar dótturfélög eins og Landsbankans, hvert er lagaumhverfi þeirra og hvernig er hægt að tryggja betur — þar sem hann virðist mjög mikið skipa starfsmenn viðkomandi fyrirtækja í stjórnir félaga og svo virðist vera, enn sem komið er, að meiri hluti þeirra starfsmanna sem starfa hjá fjármálafyrirtækjum í eigu Landsbankans séu karlmenn — á hvern máta hægt er að tryggja betur að hann tilnefni konur og að sjálfsögðu hæfar konur, vegna þess að ég held að það sé eitthvað sem við erum öll sammála um hér í umræðunni að það er fjöldi hæfra kvenna sem hægt er að skipa í stjórnir.

Síðan hefur líka verið rætt mjög mikið um eignarréttarákvæðið og það virðist vera mjög ríkt hjá sumum stjórnmálamönnum að hafa mjög miklar áhyggjur af eignarréttarákvæðinu í stjórnarskránni og túlka það mjög vítt. Ég hefði einmitt áhuga á að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra hvað það varðar og hvort það sé þannig að okkur sé heimilt að tilgreina það t.d. að stjórnarmenn í stjórnum fjármálafyrirtækja skuli hafa háskólagráðu. Erum við þá ekki að takmarka eignarrétt viðkomandi fjármálafyrirtækja? Hver er skoðun hæstv. ráðherra á þessu og hversu langt telur hann að við getum gengið án þess að stíga á þennan margumtalaða eignarrétt?